131. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2004.

Árásir á íslenska starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Kabúl í Afganistan.

[15:36]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa íslensk stjórnvöld markvisst unnið að aukinni þátttöku Íslands í friðargæslu. Nú eru friðargæsluliðar við störf í Afganistan, Sri Lanka, Bosníu-Hersegóvínu og Kosovo. Þetta er á þriðja tug manna.

Þátttaka í friðargæslu felur að okkar mati í sér aukin tækifæri fyrir okkur til að leggja okkar af mörkum, sem við öll viljum, til að stuðla að friði og stöðugleika í heiminum. Það má auðvitað vera ljóst að við Íslendingar reynum seint að leika lykilhlutverk á alþjóðavettvangi í þessum málum. En við einbeitum okkur að ákveðnum afmörkuðum verkefnum. Þess vegna getur framlag okkar skipt nokkru máli. Ég tel að okkur beri í þeim efnum skylda til að styðja við hlutverk bandamanna okkar í NATO og annarra alþjóðlegra samtaka á borð við Sameinuðu þjóðirnar í baráttu þeirra fyrir friði og um leið fyrir okkar eigin öryggi. Ég tel ekki að sérstaka lagastoð þurfi til þess, umfram það sem ríkisvaldið almennt hefur til að standa að friðargæslu af þessu tagi. Það er ljóst að þeir sem þarna eru á okkar vegum sinna borgaralegum störfum svo sem kennslu og þjálfun í brunavörnum, flugumferðarstjórn og fleiri þess háttar hlutum.

Á hinn bóginn hljóta aðilar á slíkum svæðum, friðargæslusvæðum, að vera færir um að verja sig ef til árása á þá kemur. Það felst í eðli friðargæslu að menn sem stunda friðargæslu starfa á svæðum þar sem ógn er á ferðinni, ella þyrfti enga friðargæsluliða.

Hér er um að ræða borgara sem fengið hafa örskamma þjálfun í beitingu þeirra vopna sem þeir hafa til að verja sjálfa sig og við lítum því ekki á þá sem hermenn. Á hinn bóginn, vegna þeirra spurninga sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi, hafa þeir réttarstöðu hermanna innan NATO ef til þess kæmi sem hv. þm. nefndi sérstaklega. Þetta getur farið ágætlega saman, að þessir menn gegni þeim störfum sem þeir gegna, hafi þjálfun og atbeina til að verja sjálfa sig og félaga sína og jafnframt hafi þeir réttarstöðu hermanna gagnvart NATO og lúti þeirri vernd sem þeirra réttarstöðu fylgir.

Umræðan hér, ég vil nefna það sérstaklega, tengist auðvitað hörmungum sem urðu í Kabúl nýlega þegar ráðist var á íslenska friðargæsluliða. Við hljótum að fordæma þær árásir og þær yfirlýsingar Talibana sem árásunum fylgdu. Við lítum þannig á að árás á íslenska friðargæsluliða sé um leið árás á almenning í Afganistan. Við vitum að 90% þeirrar þjóðar styður þær aðgerðir sem þarna eru á ferðinni en 10% þjóðarinnar reyna enn að koma í veg fyrir að landið gangi lýðræðisveginn.

Við skulum hafa í huga að þótt Afganistan sé fjarlægt land þá er öryggi heimsbyggðarinnar, okkar sjálfra sem annarra, undir því komið að friður og frelsi ríki í þessum hluta heimsins sem og annars staðar. Skálkastjórnir eða skálkaöfl nær og fjær ógna heimsfriðnum. Að sjálfsögðu skipum við Íslendingar okkur í hóp þeirra þjóða sem berjast gegn slíku.

Það er hins vegar rétt, eins og ég nefndi áðan, að Kabúl er og verður lengi enn hættulegur staður. Friðargæslu þarf ekki þar sem engin er ógnin. Því er auðvitað nauðsynlegt að tryggja eins og fært er öryggi friðargæsluliðanna, að öryggi þeirra sé sem mest og engin óþörf áhætta sé tekin vegna þeirra.

Í kjölfar árásarinnar á íslensku friðargæsluliðana hefur ítarlega verið farið yfir þessa atburði, aðdraganda atburðanna og aðstæður allar. Þá er verið að skoða starfshætti friðargæsluliða og reglur um þá. Einnig er verið að athuga sérstaklega hvort þjálfun þeirra sé nægjanleg. Einnig hefur verið ákveðið að yfirmannaskiptum á Kabúl-flugvelli, sem fram áttu að fara um næstu mánaðamót, verði flýtt. Nýr yfirmaður fer til Kabúl þann 10. nóvember og mun hann endurskoða öryggismál í samvinnu við núverandi yfirmann flugvallarins. Að lokinni þeirri endurskoðun mun nýr yfirmaður taka við.

Við tökum mjög nærri okkur þann skaða sem okkar menn urðu fyrir um leið og við lýsum aðdáun okkar á æðruleysi þeirra og aga eftir að ógnirnar dundu yfir og þökkum guði fyrir að ekki fór verr í þetta skiptið. Ég vil ítreka að starfsemi íslensku friðargæsluliðanna hefur verið mjög árangursrík. Stefna íslenskra stjórnvalda er óbreytt og áfram verður staðið með bandalagsþjóðum okkar í friðargæslunni í Afganistan. Ég vona að um það geti ríkt bærilegur friður.