131. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2004.

Árásir á íslenska starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Kabúl í Afganistan.

[15:41]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, fyrir að setja þetta mál á dagskrá. Það er með íslensku friðargæsluna eins og ýmislegt annað í stefnu stjórnvalda að þar var farið af stað með stefnu án þess að hún væri beinlínis lögð fyrir Alþingi Íslendinga eða rædd í þaula þegar ákvörðunin var tekin í upphafi. Saga friðargæslunnar er nú tíu ára gömul. Það var árið 1994 sem fyrstu gæsluliðarnir voru sendir til Bosníu-Hersegóvínu. Hún hefur samkvæmt ákvörðun stjórnvalda stækkað mjög að vöxtum á undanförnum árum og miklir fjármunir verið veittir í friðargæsluverkefni Íslands á erlendri grundu.

Sú sem hér stendur hefur alltaf gert athugasemdir við þetta verkefnaval ríkisstjórnarinnar vegna þess að til eru mörg nærtækari verkefni við uppbyggingu eftir stríð og þróunarsamvinnu á erlendri grundu. Ég hef líka gert athugasemdir við að íslensk stjórnvöld skuli leyfa sér að flokka friðargæsluna sem þróunarsamvinnu en það er ekki efni þessarar umræðu.

Eins og fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra eru íslensku friðargæsluliðarnir ekki óbreyttir borgarar. Hann svaraði því mjög skýrt áðan. Þeir eru hermenn samkvæmt skilgreiningum Genfarsáttmálans og staða þeirra í Kabúl er staða hermanna, hvað sem yfir dynur. Þeir lúta heraga og taka skipunum yfirmanna sinna möglunarlaust um það sem gera þarf. Þetta staðfestir það sem hefur alltaf blasað við, að friðargæslan sem slík er hermennska undir öðrum formerkjum og til hennar þarf helst af öllu þjálfaða hermenn ef vel á að vera og vel á að ganga. Það verður því að skoðast sem mikil ábyrgð íslenskra stjórnvalda að senda menn til þessara verkefna með þá litlu þjálfun sem þeir hafa hér heima fyrir.