131. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2004.

Árásir á íslenska starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Kabúl í Afganistan.

[16:04]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er slæmt að hafa ekki nema tvær mínútur.

Málið hefur skýrst nokkuð en ekki mikið, alla vega ekki fyrir framsóknarmönnum. Fulltrúi flokksins, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sagðist ekkert skilja í þessari umræðu. Á henni sjálfri var að skilja að í Afganistan væru vissulega íslenskir borgarar. Þeir eru þungvopnaðir, þeir hafa fengið herþjálfun og bera hertitla en eru eftir sem áður venjulegir borgarar, væntanlega þá dulbúnir sem hermenn. Ef þessir menn eru borgaralegir friðargæsluliðar, dulbúnir sem hermenn, þá er asni líka hestur.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að Íslendingarnir í Kabúl hefðu réttarstöðu NATO-hermanna, hermanna NATO. Hann sagði jafnframt að hann liti ekki svo á að lagastoð þyrfti fyrir því að taka ákvörðun um að koma á sveit sem hefði réttarstöðu hermanna.

Þetta tel ég rangt og rekast á við íslensk lög. Ég vitnaði í upphafi máls míns til 114. gr. almennra hegningarlaga. Ég tel að þetta þurfum við að ræða nánar og hvet til að málið verði tekið upp í utanríkismálanefnd þingsins að þessu leyti.

Síðan er margt óljóst um tryggingar Íslendinganna í Kabúl. Ég hef ekki tíma til að fara nánar út í þá sálma. En um eitt vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra sem hann drap ekki á í máli sínu, þ.e. um óskir Bandaríkjanna um að sameina friðargæsluliðið, sem svo er kallað, í Afganistan amerískum hersveitum sem eiga að heyja stríð gegn svonefndum hryðjuverkum. (Forseti hringir.) Óskir um þetta hafa komu frá Bandaríkjunum um miðjan mánuðinn og voru til umræðu í evrópskum fjölmiðum. Hvernig hyggjast íslensk stjórnvöld bregðast við þeirri ósk eða kröfu Bandaríkjastjórnar?