131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[11:05]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel að með þessu frumvarpi sé verið að stíga mikið framfaraspor og fagna þessum lagabreytingum. En ég vil taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að ég tel að við þurfum að stíga enn fleiri skref í tengslum við þessar breytingar og vek þar sérstaklega athygli á tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að viðmiðunarverðið verði hækkað hið snarasta. Gert er ráð fyrir að það verði 13 milljónir þegar lögin taka gildi eða koma til framkvæmda í ársbyrjun. En það er mjög brýnt að hækka þessa viðmiðun og hafa ber þar í huga að bankarnir sem vilja Íbúðalánasjóð helst feigan bjóða 80% lán af ótilgreindri upphæð. Við verðum að skoða þessi mál í því stóra samhengi.

Ég hef verið að rifja upp hvað breyst hafi á sviði húsnæðismála á undanförnum tveimur áratugum og það er ekki lítið. Þegar Sigtúnshópurinn kom til sögunnar í upphafi níunda áratugarins — reyndar var þá aðeins liðið á þann áratug. Það mun hafa verið árið 1983 — reis hér upp mikil hreyfing í landinu vegna þess sem kallað var misgengis launa og lána. Vorið 1983 var vísitala launa tekin úr sambandi í óðaverðbólgu en lánin æddu upp á við, verðtryggð. Þessu var harðlega mótmælt að sjálfsögðu.

Þegar þetta gerist var framlag hins opinbera til húsnæðiskaupandans um 17% af verði meðalíbúðar. Eins og ég sagði þá geisaði mikil verðbólga á þessum tíma og lánin voru greidd út í áföngum þannig að að raungildi var þessi upphæð miklu minni. Hún var sennilega 11–12%, það sem verið var að lána.

Nú erum við að tala um að hækka þetta viðmið upp í 90% þannig að hér hafa átt sér stað framfarir að þessu leyti þó að það séu ýmsar dekkri hliðar á húsnæðismálunum sem ég ætla einnig að víkja að í máli mínu, hliðar sem hljóta að valda okkur miklum áhyggjum. En þetta vildi ég hafa sagt í upphafi.

Við erum að verða vitni að miklum breytingum á húsnæðismarkaði. Mér finnst athyglisvert að skoða hvernig viðbrögð samfélagsins og þá einkum forsvarsmanna í fjármálakerfinu hafa verið við þessum tillögum.

Þegar 90% lánin voru fyrst kynnt kviknuðu miklir eldar í samfélaginu. Menn sögðu að stöðugleika í landinu væri í voða stefnt, þetta mundi skapa mikla þenslu, fasteignaverð mundi hlaupa upp úr öllu valdi o.s.frv.

Hvað gerist síðan? Síðan fara bankarnir að bjóða mun lægri vexti en höfðu verið í boði hjá Íbúðalánasjóði og miklu rýmri skilyrði að öllu leyti. Þá heyrist ekki múkk frá sömu aðilum. Þá er engin hætta á þenslu eða offramboði. Þá er ekkert varað við því að íbúðaverð fari upp úr öllu valdi.

Hvers vegna skyldi þetta vera? Jú, það er vegna þess að mikil hagsmunabarátta á sér stað í samfélaginu um hvert eigi að stefna íbúðalánakerfinu. Á að stefna því inn í bankana, inn í fjármálakerfið sem núna er búið að eignast fiskinn í sjónum og vill núna eignast öruggasta veð sem til er í hverju samfélagi, íbúðir landsmanna? Það er þetta sem er að gerast. Þessum veðum, þessum verðmætum, vilja fjármálastofnanirnar ná frá hinu opinbera, frá Íbúðalánasjóði og stefna þeim yfir í bankakerfið. Um þetta snýst slagurinn. Ég þekki þetta mjög vel. Ég veit hvernig bankar og fjármálastofnanir hafa leitað til lífeyrissjóða á liðnum árum um samstarf um húsnæðislán af þessu tagi.

Hvað gerðist á síðasta ári? Jú, Samtök banka og verðbréfafyrirtækja kærðu ríkið til Evrópudómstólsins, til ESA og vildu fá þar staðfesta þá óskhyggju sína að lánastarfsemi á vegum hins opinbera væri ekki heimil lögum samkvæmt eða samkvæmt reglum og skilmálum hins innra markaðar.

Þegar þessir aðilar höfðu ekki árangur af þessu, hvað gerist þá? Þá líða 11 dagar frá því að þeir ná ekki sinni ósk fram um að eignast húsnæðiskerfið ókeypis og þeir byrja að niðurborga og niðurgreiða og niðurbjóða, fara með vextina niður. Ellefu dagar líða. Þegar þeir fá þetta ekki á silfurfati þá skal farin þessi leið. Nú byrjar mikill slagur. Einn bankinn byrjar. Nokkrir klukkutímar líða og aðrir fylgja í kjölfarið. Þeir eru síðan að breyta skilmálum sínum á næstu klukkutímum frá því að þetta gerist. Fyrstu tilboð KB-banka voru t.d. á þá leið að menn gætu ekki greitt lánin upp, að það væri óheimilt með öllu. Síðan líða nokkrir dagar. Þetta er gagnrýnt og þá kemur tilboð um að kúnninn geti greitt lánin upp gegn 2% álagi á eftirstöðvarnar. Þannig hefur þetta síðan verið að gerast.

Náttúrlega er ógeðfelldast í þessu af hálfu bankanna að þeir hafa viljað eignast viðskiptavini sína, éta þá með húð og hári. Þeir hafa sett þau skilyrði að tvennt af þrennu skuli uppfyllt, vísaviðskipti, greiðsluþjónusta eða viðbótarlífeyrissparnaður. Tvennt af þessu þrennu skal uppfyllt til að menn fái lánin. Það er ekki verið að bjóða lán án nokkurra skilyrða. Verið er að krefjast þess að menn gerist þegnar bankans. Fyrst áttu þeir ekki að komast út og nú þegar fallið var frá því þá yrði það samkvæmt sérstakri gjaldtöku.

Við hljótum að skoða það í nefndinni líka þegar þetta kemur til kasta félagsmálanefndar hvort Íbúðalánasjóður þurfi ekki að sitja við svipuð kjör og bankarnir. Þó að ég hafi ekki verið hlynntur uppgreiðsluálagi þá hljótum við að vega saman annars vegar uppgreiðsluálagið og hagsmunina af því fyrir Íbúðalánasjóð og hins vegar vextina. Bankarnir eru fyrir neðan. Þeir eru ívið lægri með sína vexti en Íbúðalánasjóður. Væri hægt að lækka þá enn meira með því að skoða þetta samspil?

Ég hef ekki tekið afstöðu til þess en þetta eru hlutir sem við þurfum að sjálfsögðu að skoða vegna þess að við þurfum að ræða þetta í þessu breiða samhengi við samkeppnina sem bankarnir og fjármálastofnanirnar eru farin að veita Íbúðalánasjóði. Við verðum að gera það. Ég er ekki að segja að ég sé fylgjandi þessu. Ég er bara að segja að við þurfum að ræða þessa hluti í samhengi.

Þá vil ég víkja að öðrum þáttum sem ég sagði að væru alvarlegir í húsnæðiskerfi okkar, mjög alvarlegar brotalamir í húsnæðiskerfi okkar. Þótt framfarir hafi orðið gagnvart húsnæðiskaupandanum eiga þær við um þá sem á annað borð hafa efni á því að festa kaup á íbúð. Hópur þeirra sem ekki hafa efni á því hefur stækkað, þeirra sem ekki standast skilyrðin til að festa kaup á íbúð. Þá er ég að tala um fátækt fólk, fátækasta hluta samfélagsins á leigumarkaði.

Fyrir ekki svo ýkja löngu voru vextir á félagslegum lánum 1%, lánum sem gengu til aðila sem sjá skjólstæðingum sínum fyrir húsnæði, aðila á borð við Öryrkjabandalagið, námsmannasamtök og sveitarfélög. Síðan voru þeir færðir upp í 3,5%. Gera menn sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slík vaxtahækkun hefur? Mönnum reiknast t.d. til hjá Reykjavíkurborg að þetta hafi þýtt 25% hækkun á húsaleigu. Þetta er samhengi hlutanna og núna eru lánin til þessara aðila orðin enn kostnaðarsamari, þ.e. sambærileg við það sem lánað er til eignarhúsnæðis, 4,3% að undanskildu sérstöku átaksverkefni sem er á ívið lægri vöxtum.

Við vitum að um þetta voru miklar deilur í ríkisstjórninni. Þar komu tvær leiðir til álita, annars vegar að lækka vexti eða hafa stuðninginn í formi lágra vaxta og hins vegar að reiða fram sérstök stofnframlög, að félagslegir aðilar fengju tiltekna upphæð eftir fyrir fram gefnum kvörðum til stuðnings framtaki sínu. Það var önnur leiðin. Við vitum alveg hvað þarna gerðist. Sjálfstæðisflokkurinn var þessu andvígur. Það urðu talsverð átök um þetta á sínum tíma en það náði ekki fram að ganga. Það hefði verið í lagi ef hitt hefði náð fram að ganga og vextirnir verið lækkaðir en það var ekki gert. Þvert á móti hafa þeir farið hækkandi. Þetta er það sem ég tel að við þurfum að taka til skoðunar í húsnæðiskerfinu, á hvern hátt við getum komið með myndarlegri hætti til móts við þá aðila sem sinna félagslegum þörfum.

Auðvitað er þá hin leiðin eftir, þ.e. önnur leið sem er vissulega farin, að greiða húsaleigubætur. Húsaleigubæturnar má hækka og Reykjavíkurborg hefur t.d. farið inn á þá braut sem mér finnst vera mjög skoðunarverð og ágæt, þ.e. að reiða fram sérstakar húsaleigubætur til þeirra sem eru á lægsta kaupinu, hafa minnst handa á milli. Þeir fá sérstakar húsaleigubætur. Þær eru ætlaðar fyrir það fólk sem ekki fær inni í félagslegu húsnæði. Hins vegar hef ég áhyggjur af því að það kunni að vera verr sett en hinir og úr því þarf að bæta. Það er tæknilegs og pólitísks eðlis að ráða bót á slíku.

Í lokin vil ég aftur koma ögn að þeim kerfisbreytingum sem við stöndum frammi fyrir því að ég hef grun um að þeir séu margir enn sem vilji Íbúðalánasjóðinn feigan og vilji takmarka umsvif hans. Menn hafa í því sambandi t.d. bent til Noregs. Þar hefur opinbera íbúðalánakerfið takmarkaðri verkefni. Þá er hugsunin sú að opinbera húsnæðiskerfið láni þeim sem hafa minnstar tekjur, opinberir aðilar sjái um þann hóp í samfélaginu, en bankar og fjármálafyrirtæki láni hinum sem hafa sæmileg fjárráð. Allt hljómar þetta ágætlega þangað til dæmið er gert upp og reiknað út.

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það að lánsfjármagnið sem opinbera kerfið yrði að afla yrði dýrara. Ótraustari veð væru að baki því fjármagni en þeim peningum sem bankarnir öfluðu sjálfir. Þeir væru með allt sitt pottþétt en opinberu aðilarnir yrðu að þjónusta þau svæði þar sem veðin væru ótraust. Bankarnir töluðu um virk og óvirk veð. Þeir aðilar sem tala svona vilja að opinbera kerfið hafi óvirku veðin, það sjái um þau, og eigi síðan að fara út á fjármálamarkað og afla lánsfjármagns til að setja inn á þessi svæði. Ef við ætlum að halda okkur við þá formúlu, þá hugsun að Íbúðalánasjóður sé sjálfbær, hann fái ekki utanaðkomandi peninga, yrði niðurstaðan sú að lánin sem yrðu veitt til þeirra svæða þar sem veðin eru óvirk — þá erum við fyrst og fremst að tala um landsbyggðina — yrðu dýrari. Þar yrðu vextirnir hærri. Viljum við þetta? Nei. Þetta bæri vott um mjög slæmt bisnessvit. En þetta vilja bankarnir að sjálfsögðu. Bankarnir og fjármálafyrirtækin vilja þetta að sjálfsögðu, og það eitt er alveg víst að þau eru ekkert hætt.

Þetta mun nú verða tekið til umfjöllunar í félagsmálanefnd og ég vil alveg í blálokin enn taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að við hröðum afgreiðslu þessa máls og tökum viðmiðunarupphæðirnar til endurskoðunar. Þær verða að eiga sér samsvörun í veruleikanum. Hvað kostar húsnæðið í raunveruleikanum? Ef við svörum ekki því kalli, ef við horfum ekki á þær viðmiðanir er hinn kosturinn sá að fólki verði einfaldlega ýtt inn í bankakerfið, inn í gin ljónsins.