131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:26]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir taka stórt upp í sig þegar hún sagði áðan að það loforð sem framsóknarmenn gáfu fyrir síðustu kosningar skipti afskaplega litlu máli fyrir fólkið í landinu. (JóhS: Ég sagði að það mundi ekki gera það nema ...) Mundi ekki gera það. En þá vil ég minna hv. þingmann á að við sem sitjum bæði í félagsmálanefnd þingsins vorum í mjög mikilli vinnu á síðasta löggjafarþingi við að endurskipuleggja húsnæðislánakerfið. Það frumvarp sem ráðherrann lagði fram þá hefur valdið því að vextir af húsnæðislánum hafa lækkað úr 5,1% niður í 4,3%. Svo segir hv. þingmaður þegar vextir hafa lækkað um hátt í 1% af húsnæðislánum að það skipti afskaplega litlu máli fyrir fólkið í landinu. Ég verð að segja að ég skil ekki svona málflutning. Og þegar hv. stjórnarliðar hafa líka gefið út að það hámarkslán sem hæstv. ráðherra er búinn að gefa út að verði 13 millj. um næstu áramót sé kannski einungis byrjun á langri vegferð, skiptir það heldur engu máli? Að hjón með eitt barn geti keypt sér nokkuð góða og þokkalega þriggja herbergja íbúð hér í bæ, skiptir það ekki máli fyrir fólk? Mér finnst þetta afskaplega villandi og neikvæður málflutningur.

Auk þess vil ég andmæla því sem hv. þingmaður nefndi áðan að hámarkslánið ætti að vera bundið í lög. Slíkt yrði mjög þungt í vöfum ef félagsmálaráðherra þyrfti að koma inn á Alþingi í hvert skipti sem hann vildi hækka hámarkslánið og fara í gegnum þrjár umræður í þinginu í því skyni að hækka það. Ég veit ekki hvert hv. þingmaður er að fara í málflutningi sínum en mér finnst mjög mikilvægt að þetta sé bundið í reglugerð.