131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[13:58]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. málshefjanda, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, fyrir að taka þetta mikilvæga mál til umræðu, en vil byrja á því að nefna hlut þeirra sem ekki geta sagt upp samningum sínum ef verðlagsþróunin verður eins og spáð hefur verið, sem eru lífeyrisþegar, örorku- og ellilífeyrisþegar, og spyrja hæstv. forsætisráðherra: Ef verðlagsforsendur fara fram úr fjárlögum verður þá lífeyrisþegum ekki örugglega bættur sá skaði? Ég bið hann að svara þeirri spurningu á eftir.

Annars er athyglisvert í umræðunni að heyra hv. þm. Einar Odd Kristjánsson og Pétur H. Blöndal ráðast svo harkalega að fjarstöddum hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, og segja að kjarasamningar fjármálaráðuneytisins hafi allir verið úr böndunum og að allt aðhald skorti í ríkisrekstrinum. Það er nokkuð annar tónn en heyrist hjá hæstv. forsætisráðherra sem virðist ekki alveg búa við sama veruleika og hv. þingmenn. Hann segir að ekkert hafi gerst sem gefi tilefni til þessarar umræðu. Nei, nei, herra forsætisráðherra, það er bara hagdeild Alþýðusambands Íslands sem hefur sagt að forsendur kjarasamninga geti brostið á næsta ári. Það er nú heldur betur ástæða til þess að ræða málin. Það er ekki ástæða fyrir hæstv. forsætisráðherra að segja að það sé engin ástæða til að óttast og það sé bara gott að fólk sé að taka húsnæðislán.

Hvaða skilaboð eru það frá hæstv. forsætisráðherra? Það eru skilaboð til almennings og atvinnulífs um að óhætt sé að keyra neyslu og fjárfestingar eins og hverjum og einum hugnast. Það eru neyslu-, eyðslu- og fjárfestingarhvetjandi skilaboð frá stjórnvöldum sem eiga þvert á móti á þenslutímum sem þessum að standa traustum fótum í þessum stól í veruleikanum og vara við óhóflegri bjartsýni, vegna þess að þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson varaði við því í desember árið 2000, (Forseti hringir.) og menn hlustuðu ekki, fór verðbólgan í 9% árið eftir. Það hækkaði skuldir heimilanna í landinu um tugi milljarða að missa þannig stjórn á efnahagsmálunum og tala í tómri bjartsýni, herra forsætisráðherra.

(Forseti (JóhS): Ég vil minna hv. þm. á að beina máli sínu til forseta en ekki til einstakra þingmanna eða ráðherra.)