131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:25]

Hilmar Gunnlaugsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil nota þetta tímabundna tækifæri mitt á þingi til þess að taka aðeins þátt í umræðunni. Ég þekki nokkuð vel til fasteignamála á mínu svæði, Austurlandi, og hef kynnst bæði virkum og óvirkum markaðssvæðum.

Vegna ummæla í morgun er ljóst að menn virðast hafa mestar áhyggjur af stöðu Íbúðalánasjóðs þó, eins og hæstv. félagsmálaráðherra kom inn á áðan, að sjóðurinn væri ekki takmark heldur kjör viðsemjenda hans, sérstaklega á landsbyggðinni eins og mál virðast vera að þróast. Ef við gefum okkur að hagsmunir Íbúðalánasjóðs skipti lántakendur miklu máli verður að fara varlega í þessi mál. Það er ljóst að með 90% lánum er verið að taka ákveðna áhættu. Vegna orða hv. 3. þm. Norðaust., Kristjáns L. Möllers, um markaðsverð er fullkomlega eðlilegt að Íbúðalánasjóður, eins og aðrir sem lána út á veð, gangi tryggilega úr skugga um að um tryggt veð sé að ræða. Það þekkist því miður að það sem er sett á pappír sé ekki endilega markaðsvirði. Þess vegna er eðlilegt að það sé kannað. (Gripið fram í: Er verið að falsa eitthvað?) Því miður er alltaf sú hætta til staðar. Það verður að spyrja sig og stunda gagnrýna hugsun í þessum efnum. Þess vegna tel ég fullkomlega eðlilegt að það sé kannað, þó það verði auðvitað að gera það þannig að það hleypi ekki kostnaðinum of mikið upp.

Það er ljóst að Íbúðalánasjóður mun verða fyrir meiri áhættu með þessu kerfi. 90% lán þýða, alla vega þar sem ég þekki til, að þar sem ekki er virkur markaður fylgist einfaldlega ekki að markaðshækkun og hækkun lána þegar um verðtryggð lán er að ræða. Fasteignir lækka oft kannski ekki í krónum talið en þegar lánin hækka, og 90% lán eru fljót að éta upp eigið fé í fjárfestingunni, þarf að fara mjög varlega. Ég vil lýsa yfir ákveðnum áhyggjum með þetta og vona að það stökkvi ekki allir um of, eins og rætt hefur verið um í dag, að nýta sér það frelsi sem vissulega fylgir þessu til fulls. Það er engin nauðsyn til þess.

Vegna umræðunnar í morgun vil ég mótmæla því að endalaust sé verið að stilla bönkum og Íbúðalánasjóði upp sem einhverjum andstæðum. Sem dæmi um það var í morgun verið að gera því skóna að bankarnir væru búnir að draga línu í kringum höfuðborgina og hugsuðu ekki um neitt annað. Af því að ég þekki betur til en það veit ég að vissulega skipta bankarnir landinu upp í virk og óvirk markaðssvæði, en það er ekki verið að draga einhverja línu á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Ég verð að segja eins og er að ég er orðinn hundleiður á því þegar þingmenn leyfa sér að einfalda hlutina með þessum hætti, að menn séu hólfaðir í tvö hólf. Það verður að vera málefnaleg umræða um þetta. Hún er ekki málefnaleg þegar landsbyggðin er öll sett undir einn hatt og höfuðborgarsvæðið undir annan.

Vegna umræðunnar um að bönkum og Íbúðalánasjóði sé stillt upp sem andstæðum þá geta þeir aðilar unnið ágætlega saman í dag. Ég fæ reyndar ekki betur séð en verið sé að gera það að tillögu að hætta því upp að ákveðnu marki, þ.e. þegar verið er að kaupa fasteignir sem eru aðeins í hærri kantinum geta einstaklingar í dag tekið lán á 1. veðrétt og svo fullt lán hjá Íbúðalánasjóði. Mér sýnist að verið sé að gera það að tillögu að þetta verði lagt niður. Það er að mörgu leyti miður að verið sé að stilla fólki upp annaðhvort eða. Mér finnst að Íbúðalánasjóður eigi ekki að þurfa að vera settur í þá stöðu.

Almennt séð er auðvitað um nokkuð jákvætt mál að ræða í þeim skilningi að þetta mun væntanlega örva fasteignamarkaðinn og vonandi hleypa lífi í óvirku svæðin og gera þau virkari en það verður að fara varlega í þessu máli.