131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[10:58]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir mál sitt. Mér finnst ástæða til þess í upphafi umræðunnar að fagna því sérstaklega fyrir hönd okkar óbreyttra þingmanna að hér situr nýr forseti Norðurlandaráðs, 4. þingmaður Suðvesturkjördæmis.

Málið er endurflutt frá því í fyrra og er stórt og mikilvægt eins og greina mátti á umfjöllun hæstv. umhverfisráðherra um það. Í fyrra var því lýst af hálfu okkar samfylkingarmanna að við styddum eitt af aðalatriðum málsins, að ákvörðunarvald og ákvörðunarskylda skyldi færð frá embættismönnum í stjórnsýslunni, hversu góðir og ágætir sem þeir kunna að vera, til stjórnmálamanna, til fulltrúa almennings. Þetta stendur enn og ástæða til að ítreka stuðning okkar við það. Við teljum að sú skipan sem var tekin upp hafi ekki gefist vel af ýmsum ástæðum, það sé óeðlilegt að fela embættismönnum slíkt vald og setja á þá þá skyldu. Í reynd hefur komið í ljós að stjórnmálamenn hafa ekki sætt sig við að embættismenn hefðu þetta ákvörðunarvald heldur í raun tekið það frá þeim í a.m.k. einu afar mikilvægu máli sem stríð hefur staðið um í samfélaginu.

Við létum hins vegar í ljós efasemdir um marga aðra efnisþætti og lögðumst beinlínis gegn sumum þeirra. Það er ástæða til að fara yfir þá þótt umfjöllunin bíði að sjálfsögðu umhverfisnefndar. Ég tel þó ástæðu til að fara yfir nokkur atriði af því tagi.

Rétt er að taka það fram að þetta mál var eitt af helstu málum vetrarins í starfi umhverfisnefndar í fyrra. Kallað var eftir umsögnum og gestir komu á fund nefndarinnar. Þetta tók töluvert mikinn tíma. Hins vegar var umræða meðal nefndarmanna sjálfra um málið ekki hafin að gagni og í raun ekki komin fram afstaða einstakra nefndarmanna til ýmissa efnisatriða í frumvarpinu.

Ég get þess sérstaklega að í fyrra var í umhverfisnefnd lítt fjallað um skipan mála í öðrum löndum, í grannríkjum okkar, umfram það sem stendur í greinargerðinni. Það er mikilvægt að gera það nú. Ég nefni t.d. að eitt af því sem við þurfum að fara í gegnum er hin norska skipan í vatnsaflsmálum. Það er eitt mikilvægasta og viðkvæmasta þeirra sviða sem falla undir mat á umhverfishrifum. Um þetta fjallaði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nýlega í ágætri þingsályktunartillögu og er ástæða til að halda áfram þeirri umræðu sem hún hóf þar. Ég vil nota tækifærið og biðjast forláts á því að hafa ekki getað verið viðstaddur þá umræðu. Það var full ástæða til þess.

Eitt af því sem almennt þarf að ræða í tengslum við frumvarp þetta, vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi, er hver eigi að vera þáttur framkvæmdarvalds, löggjafa og almennings í ákvörðunum um framkvæmdir sem geta skaðað umhverfið. Þar er mikilvægt að menn taki réttar og skynsamlegar ákvarðanir, ekki bara fyrir sjálfa sig og þær kynslóðir sem nú eru uppi heldur líka kynslóðir í framtíðinni. Ég ætla að koma aðeins að því í lok þessa máls.

Þær mikilsverðu breytingar hafa orðið frá því í fyrra að umtalsverð umhverfisáhrif, það hugtak „umtalsverð umhverfisáhrif“, er aftur komið inn sem mælikvarði eins og í núgildandi lögum. Þetta er afar mikilvægt. Það var gagnrýnt harðlega í fyrra að þetta skyldi fellt út og í raun fengust aldrei almennileg svör við því hvers vegna það var gert. Þau voru tæknileg. Sagt var að erfitt væri að meta umtalsverð umhverfisáhrif en í raun fengust ekki svör við því nákvæmlega af hverju það væri. Ég fagna því mjög að þetta sé komið inn aftur og það ber að virða það sérstaklega við hinn nýja hæstv. umhverfisráðherra sem málið flytur. Hún býr auðvitað að því að í umræðunni í fyrra, á þinginu og í nefndinni sjálfri, kom þetta sérstaklega fram.

Ég skil frumvarpið svo, fyrir utan þá skilgreiningu sem þessu fylgir í textanum sjálfum, að þetta verði nánar útfært í leiðbeiningum Skipulagsstofnunar. Við þurfum að skoða hvort það er nægilegt eða hvort skýra þurfi það betur í lagatextanum. En þetta er mjög mikilvæg breyting og bætir frumvarpið verulega.

Annað sem ég minnist frá gagnrýninni í fyrra er að nýtt orðalag er til bóta. Nú er talað um frummatsskýrslu en ekki matsskýrslu þegar átt er við drög framkvæmdaraðilans. Þetta er kannski ekki mjög mikilvægt lagatæknilegt atriði en það lýsir ákveðnum sjónarmiðum, ákveðnum anda, sem mér þykir miklu vænni en var í fyrri gerð.

Eftir standa ýmsar efasemdir og gagnrýni sem við þurfum að ræða. Ég vil fyrst nefna að samkvæmt frumvarpinu er verið að færa töluverða ábyrgð og töluvert vald til framkvæmdaraðilans frá stjórnsýslunni. Þetta þurfum við enn að athuga mjög rækilega og jafnframt hvaða burði eftirlitsaðilinn, Skipulagsstofnun einkum, hefur til að meta rannsóknir og staðhæfingar framkvæmdaraðila.

Enn eitt vil ég nefna frá því í fyrra. Um úrskurðarnefndina er nú getið í síðari hluta frumvarpsins en var áður í sérstöku frumvarpi. Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála er óbreytt frá fyrri gerð frumvarpsins. Í henni sitja fimm menn, þar af eru tveir frá umhverfisráðherra og þrír frá Hæstarétti. Hún getur úrskurðað öll saman, þrír menn eða fimm menn. Ákvörðunin er formanns, sem er annar af mönnum umhverfisráðherra í nefndinni. Þannig er hugsanlegt að í úrskurðum frá nefndinni hafi tveir menn, skipaðir af umhverfisráðherra, meiri hluta. Þetta var gagnrýnt í fyrra en hefur ekki breyst. Þetta er ákaflega óheppilegt. Ég reikna ekki með því að þetta sé af ráðum gert og ég get ekki reiknað með því. Hins vegar kemur upp óskemmtileg staða í úrskurðarnefndinni sem á að vera sjálfstæð og endanlegt úrskurðarvald, að þar skuli tveir menn frá umhverfisráðherra geta tekið ákvarðanir sjálfir með tveimur atkvæðum gegn einu, ef þannig verkast, um mikilvæg málefni. Það getur verið einfalt að breyta þessu og ég fer fram á það að hæstv. ráðherra svari því á eftir hve mikla áherslu hún leggur á þetta mál og af hverju það þarf að vera svona.

Enn nefni ég gagnrýnisatriði frá því í fyrra. Hér situr enn við það sama um skilyrði við málskot eða kærur. Þau eru annars vegar bundin við lögvarða hagsmuni og hins vegar við sérstök umhverfissamtök með tiltekinn félagafjölda. Í fyrra var þráspurt um af hverju þetta þyrfti að vera svona, af hverju við gætum ekki haldið okkur við það sem vel hefði reynst af fyrri skipan, þ.e. að málskotsrétturinn væri tiltölulega almennur. Því var aldrei svarað en eingöngu vísað til þess, eins og hæstv. ráðherra gerði áðan, að þetta væri víðtækara, þótt það væri þrengt núna, en annars staðar. Það var talin afsökun fyrir þrengingu ákvæðanna.

Forseti. Hið íslenska samfélag og landið sjálft auðvitað líka er öðruvísi en annars staðar. Við erum fámenn þjóð, sem er bæði galli og kostur. Það er kostur að því leyti að við teljum okkur öll eiga hagsmuna að gæta alls staðar á Íslandi. Það er mikið um flutning milli svæða á landinu. Hér er miklu síður en annars staðar hægt að tala um að menn séu bundnir héruðum eða einstökum sveitum. Við öll sem hér sitjum og allir þeir sem á hlýða eiga sennilega ættir að rekja til margra héraða, ekki bara eins eða tveggja. Það er sjaldgæft að menn reki ættir sínar í nokkra liði til eins héraðs. Bara það stillir mönnum þannig upp, einstaklingum á Íslandi, að þeir hugsa um allt landið.

Á öllu landinu er mikil þekking bæði meðal leikra og lærðra á náttúrufari og umhverfi landshorna þar sem menn búa ekki. Flestir Íslendingar hafa ferðast um eigið land meira en annarra þjóða menn hafa gert um sín lönd. Hér er mikið um sjálfstæða fræðimenn, bæði menntaða og ómenntaða. Það er talinn einn af helstu kostum okkar í náttúru- og umhverfisefnum þegar erlendir menn koma að skoða þau. Allt mælir með því að á Íslandi sé mjög víðtæk skilgreining á því hverjir geti kært og gert athugasemdir en ekkert sem mælir sérstaklega með þrengingu skilyrðanna fyrir því. Það hefur a.m.k. aldrei komið fram og hefur ekki valdið umtalsverðum vandræðum hingað til hjá Skipulagsstofnun, að menn hafi sent þar inn kærur eða athugasemdir. Þær hafa ósköp einfaldlega verið flokkaðar, taldar upp og úr þeim tekin þau efnisatriði sem máli skipta. Ég sé enga ástæðu til að breyta því.

Á hinn bóginn er eftirtektarvert að þessi tillaga í frumvarpinu, um að aðeins umhverfissamtök megi gera athugasemdir, þ.e. umhverfissamtök sem skilgreind eru með vissum hætti, endurskoðuðu bókhaldi, aðalfundargerð og 50 félögum, er farin að hafa áhrif. Ég var um daginn viðstaddur, að vissu leyti af tilviljun, stofnun nýrra umhverfissamtaka á Íslandi, á stofnfundi þeirra. Þar er um að ræða Náttúruvaktina, ágætisfólk sem hefur tekið sig saman og stofnað samtök. Á stofnfundi þeirra var umræða um hvort þetta ættu að vera almenn umhverfisverndarsamtök eða hvort þau ættu að einbeita sér að tilteknum þáttum sem félagar þeirra hafa mestan áhuga á nú um stundir. Því var svarað til af frumkvöðlunum að þetta ættu að vera almenn umhverfissamtök, þau yrðu að vera með almenna stefnuskrá og búa sig með sérstökum hætti vegna þess að í frumvarpi sem fram hefði komið í fyrra og kæmi fram aftur núna væru ákvæði um að einungis slík samtök gætu talist hæf til að veita umsagnir og gera athugasemdir við framkvæmdir sem þeim koma við.

Þá spyr maður: Er ætlast til þess að löggjafinn setji sérstök fyrirmæli um hvernig samtök landsins eigi að vera? Það er ákaflega sérkennilegt og í raun þvert á þá þróun sem undanfarna áratugi hefur verið í félagsmálum og slíkum samtökum. Annars vegar eru skipuleg samtök sem hafa bókhald, aðalfundi, fasta félaga og innheimta af þeim félagsgjöld. Hins vegar eru hópar, óformlegri og lauslegri hópar, sem upp spretta í kringum einstök mál eða við sérstakar aðstæður. Slík samtök skipta miklu máli, hafa sig mjög í frammi og hafa mikil áhrif í skamman tíma en leggjast síðan kannski af eða breytast í eitthvað annað. Þetta er fullkomlega eðlilegt og ekkert við þessu að gera. Aftur á móti óeðlilegt að löggjafinn skipti sér af því hvernig slík samtök eru byggð upp.

Það væri eðlilegt og ósköp einfalt að fella umrædd ákvæði niður þannig að menn hafi almennan kæru- og athugasemdarétt án tillits til þess hvort þeir eru félagar í samtökum eða ekki. Ég hef ekki enn skilið þetta og fer fram á að hæstv. umhverfisráðherra, sem tekur þetta upp frá fyrra frumvarpi, skýri fyrir okkur hvers vegna lögin þurfa að vera svona að hennar viti.

Í fyrra var jafnframt gagnrýnt að ekki væri nein grein gerð fyrir því hvernig frumvarpið tengdist nýrri tilskipun frá Evrópusambandinu, tilskipun nr. 2003/35/EB. Ég fagna því að nú er kafli um þá tilskipun á bls. 13 í þingskjalinu. Í fyrra var spurt að því af hverju ekki væri um hana fjallað. Svörin við því voru lítil.

Síðan gerðist það í fyrra, til upprifjunar, að vegna þessara spurninga svaraði þáverandi ráðherra því til að lögfræðingar ráðuneytisins hefðu farið í gegnum tilskipunina og teldu að frumvarpið færi ekki í bág við hana en það var nánar spurt eftir gögnum frá þessum lögfræðingum. Þau komu ekki fram og í ljós kom að þau höfðu ekki verið til. Þetta var ekki lögfræðileg vinna heldur var gefið einhvers konar munnlegt álit á málinu. Ætla mátti að verið væri að reyna að bregðast með litlum þrótti við þeirri gagnrýni sem fram hafði komið. Nú er svolítill kafli um þessa tilskipun þar sem hún er kynnt og henni lýst en ekkert er getið um hvaða áhrif hún kunni að hafa á frumvarpið eða hvernig hún muni virka, sem er leitt og í raun og veru dálítið skrýtið eftir gang mála í fyrra.

Það verður að vekja athygli á því enn einu sinni að þessi tilskipun er ekki einhver framtíðarmúsík heldur stendur beinlínis í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar hafa aðildarríkin frest til 25. júní 2005 til að innleiða ákvæði hennar og er nú unnið að innleiðingunni í samráði við utanríkisráðuneytið.“

Nú er nóvember 2004 og ef miðað er við venjulegan gang mála á þinginu verður þetta frumvarp ekki samþykkt eða afgreitt fyrr en á síðari hluta þingsins. Þá verða einn eða tveir mánuðir þangað til kominn er 25. júní 2005. Þess vegna hefði mátt gera ráð fyrir að í greinargerðinni væri skýrari kafli um hvaða áhrif hin nýja tilskipun hefði á það efni sem við erum að ræða um. Ég vil biðja hæstv. umhverfisráðherra að skýra betur fyrir okkur af hverju ekki er fjallað nánar um þetta.

Það eru ýmis önnur atriði sem þarf að fjalla um en ég ætla ekki að gera það nú. Það verður auðvitað gert í umhverfisnefnd.

Ég vil segja þetta að lokum. Í mínum huga eru nú meiri efasemdir um þetta mál en voru um svipað leyti í fyrra, þrátt fyrir að frumvarpið sé orðið annað og betra. Þar veldur einkum sá straumur virkjana og stóriðjuhugmynda, tillagna og áforma sem leikið hefur um Ísland á síðustu árum. Ég tel að við þurfum að athuga betur en gert hefur verið og átta okkur betur á hver hugur almennings og kjörinna fulltrúa um einstakar framkvæmdir er og taka ákvarðanir í samræmi við það. Framkvæmdir sem valda umtalsverðum umhverfisáhrifum geta ekki bara verið mál fyrirtækja, framkvæmdarvaldshafa og embættismanna. Við verðum að skoða þessar breytingar mjög vel í tengslum við þetta frumvarp og ég vænti þess að það verði gert í umhverfisnefnd.