131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[12:31]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar til að bæta aðeins í þessa umræðu af því að hér hafa komið til tals tvö svæði sem ég þekki nokkuð til og í báðum tilfellum finnst mér augljóst hvað skortir á í þeim lögum og reglugerðum sem við höfum varðandi mat og verndun svæða.

Í fyrsta lagi varðandi þá virkjun sem hér hefur komið til tals á Vatnaheiði á Snæfellsnesi. Þar er um að ræða 2 megavatta virkjun og mér er kunnugt um að íbúum á því svæði hnykkti við þegar þeir sáu þær framkvæmdir sem þar eru hafnar vegna þess að auglýsingin, einhver lítil auglýsing þar sem auglýst var eftir athugasemdum, hafði algjörlega farið fram hjá þeim. En það mun vera þannig að það er nóg að auglýsa eftir athugasemdum og ef þær berast þá ber að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum.

Ég tel augljóst að við þurfum að setja skýrari ákvörðun um hvernig beri að auglýsa þannig að það sé nokkuð tryggt að íbúar viðkomandi svæða verði varir við það þegar eitthvað slíkt eins og þarna er um að ræða er í bígerð. Búið er að móta fyrir vegi handan árinnar þar sem vegurinn yfir Vatnaheiði liggur og þangað eru komnar stórar pípur sem að vísu verða grafnar í jörð og síðan verður byggt þarna stöðvarhús. Það verður stífla við annað tveggja stöðuvatna sem eru þarna ofar í heiðinni og þau notuð sem miðlunarlón þannig að um er að ræða umtalsverðar framkvæmdir sem ekki er skylt að setja í umhverfismat nema fram komi athugasemdir frá íbúunum.

Hitt svæðið sem um er að ræða er í Skagafirði og matið sem fram fór á Villinganesvirkjun náði að langmestu leyti aðeins til næsta umhverfis fyrirhugaðrar virkjunar eða hugsanlegrar virkjunar ætla ég nú að segja frekar þar sem ekki er alveg víst, sem betur fer, að af virkjun verði.

Þannig hagar til í Skagafirði að vatnasvið Héraðsvatna er að stórum hluta á miklu flatlendi og á árum áður flæmdust vötnin um flatlendi fjarðarins fram og til baka. Nú hefur þeim hins vegar verið beint í frekar þröngan farveg en þau hafa hlaðið undir sig og renna eftir miklu flatlendi eins og ég sagði og skapast reyndar oft flóðahætta á vissum árstímum.

Öðrum megin Hegraness við ósa Héraðsvatnanna er friðland fugla og hinum megin við austari ósa Héraðsvatna liggur fyrir tillaga í nýsamþykktri náttúruverndaráætlun um friðun vegna mjög fjölbreytts fuglalífs og náttúru. Sérfræðingur sem ég kom að máli við sagði mér að ef virkjað yrði frammi í Skagafirði væri mjög líklegt að verja þyrfti alla strandlengjuna vegna þess að framburðurinn minnkar og þá þarf væntanlega að verja alla árbakkana lengst fram eftir firði.

Og mér er spurn: Hvernig kemur þetta við friðlandið? Þegar við erum með friðlönd erum við þá ekki að vernda svæðin sem næst því ásigkomulagi sem náttúran skilaði þeim í okkar hendur? Mér finnst algjörlega ósamrýmanlegt að haga málum þannig að við stöndum hugsanlega frammi fyrir því eftir nokkur ár að þurfa að setja fyrirhleðslur og varnir meðfram öllum árbökkum eins og þeir leggja sig lengst fram eftir firði eins og í þessu tiltekna tilfelli. Mig langar að varpa þeirri spurningu til hæstv. umhverfisráðherra hvernig hún metur stöðu friðlanda og verndaðra svæða í svona samhengi og hvort ekki þurfi að tryggja í náttúrurverndaráætlun að sérstakt tillit sé tekið til þess þegar einhverjar slíkar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi eins og í því tilfelli sem ég er að benda hér á.