131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[12:49]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég tók skýrt fram í ræðu minni áðan er þetta til skoðunar í undirnefnd EFTA. Þar eru margir aðrir lagabálkar undir. Ég tók líka fram að við teldum að við hefðum þegar komið inn í íslenskan rétt ýmsu af því sem er tekið fram í greinargerð um innihald tilskipunarinnar.

Á þessu stigi þekki ég ekki út í hörgul hvernig menn vinna á vegum utanríkisráðuneytisins að þessu máli. Hins vegar er alveg ljóst að það er ekki komið að því að okkur sé skylt að taka málið inn í íslensk lög á þessu stigi. Mér finnst þó mjög líklegt að svo verði. Það er auðvitað hluti af innleiðingarferlinu.