131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[12:53]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þær athugasemdir sem fram komu í ræðu minni áðan vörðuðu í fyrsta lagi það að dæmi eru þess að andi laganna hafi ekki náð fram að ganga, þ.e. að sá andi laganna að gefa landsmönnum færi á að gera athugasemdir við tilteknar fyrirhugaðar framkvæmdir. Þegar maður verður var við slíkt hlýtur að liggja næst fyrir að reyna að bæta lögin. Það var markmiðið með þeim athugasemdum sem hér voru gerðar í því efni.

Mér finnst frekar billega sloppið hjá hæstv. ráðherra að benda á náttúruverndarlög varðandi hitt dæmið sem ég kom með, þ.e. óshólmasvæði Héraðsvatna. Það hlýtur að vera þannig að lög eigi að spila saman. Nú erum við að tala um mat á umhverfisáhrifum og lög um mat á umhverfisáhrifum fjalla um það, ekki náttúruverndarlög. Ef við gætum þess ekki að setja sterk og skýr ákvæði inn í lög um mat á umhverfisáhrifum þá getum við ekki vænst þess að á málunum verði tekið annars staðar. Ef við gætum þess ekki að skoða t.d. hvað við erum að gera í þessu tilfelli þá hættum við ekki einungis á mikinn fjárhagslegan skaða sem þjóðin gæti orðið fyrir vegna viðnámsaðgerða heldur hættum við á óbætanlegan skaða á náttúrunni.

Mér finnst ekki hægt að beina sjónum annað þegar bent er á leiðir til að lagfæra aðferðafræði okkar til verndar náttúrunni.