131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[13:34]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir rúmlega 11 árum voru samþykkt á Alþingi samkeppnislög og var um málið breið pólitísk samstaða. Var það trú alþingismanna að virk samkeppni mundi bæta lífskjör almennings á Íslandi og stuðla að kröftugu og öflugu atvinnulífi og heilbrigðari viðskiptaháttum. Ári áður en samkeppnislög tóku gildi, þ.e. 1992, hafði allur olíuinnflutningur til landsins verið gefinn frjáls og ríkið hætt afskiptum af verðlagningu olíufélaganna. Viðskiptalífið fagnaði þessu og hét því að auknu frelsi fylgdu framfarir.

Ljóst er hins vegar af atburðum síðustu daga að þar töluðu sumir hverjir tungum tveim. Ákvörðun samkeppnisráðs um samráð olíufélaganna sýnir að stjórnendur olíufélaganna ákváðu strax í upphafi að nýta sér nýfengið viðskiptafrelsi til að auðgast á kostnað íslenskra neytenda og fyrirtækja. Þessi ákvörðun samkeppnisráðs sýnir alveg ótrúlega skipulagt, umfangsmikið og alvarlegt brot gegn samkeppnislögum og í gegn skín fyrirlitning á viðskiptavinum og almenningi, þeir nefndir andskotar og fífl af stjórnendum olíufélaganna eins og fram kemur í tölvupóstum þessara manna.

Samráð olíufélaganna tengdist allri starfsemi fyrirtækjanna. Samráð var haft um verð á eldsneyti til neytenda og fyrirtækja, félögin skiptu með sér mörkuðum og viðskiptavinum. Olíufélögin unnu að því að takmarka alla afslætti og reyndu hvað þau gátu að halda nýjum keppinautum frá markaðnum. Í samráðinu lögðu olíufélögin alveg sérstaka áherslu á að halda uppi verði á landsbyggðinni og hótuðu erlendum fyrirtækjum til þess að koma í veg fyrir að íslenskir útvegsmenn gætu keypt ódýrari olíu í Færeyjum. Brotavilji forstjóra olíufélaganna var harður og einbeittur og skoruðu þeir hver á annan að eyða og fela öll gögn um afbrot sín.

Þetta sannaða samráð olíufélaganna stóð í á níunda ár. Að mínu viti er alveg ljóst að það hefur skaðað íslenskt samfélag. Sé beitt mælikvörðum frá OECD má meta samfélagslegt tjón af samráðinu á þessum tíma á 44 milljarða.

Viðskipti með olíuvörur eru mikilvæg í hinu íslenska hagkerfi, bæði fyrir heimilin í landinu og fyrirtækin. Í ljósi þessa er það skýrt í mínum huga að forstjórar olíufélaganna stóðu fyrir aðför að samfélaginu. Olíuforstjórarnir gerðu aðför að almenningi með því að hafa af fólki fé og samráðið hækkaði afborganir og skuldir heimilanna í landinu. Forstjórarnir gerðu aðför að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar með því samsæri sínu að halda uppi verði og eyða samkeppni.

Í Bandaríkjunum er talað tæpitungulaust um stjórnendur fyrirtækja sem standa í samráði og þeir kallaðir af þarlendum yfirvöldum vel klæddir þjófar. Eftir að hafa lesið ákvörðun samkeppnisráðs get ég tekið undir þessa lýsingu á samráðsmönnum og ég fordæmi þetta samsæri gegn lífskjörum landsmanna.

En hvað er til ráða gegn slíkri misnotkun á viðskiptafrelsi? Ég tel rétt að fagna því að Samkeppnisstofnun hafi komið upp um þetta samráð og skilað af sér vandaðri niðurstöðu. Alþingi verður síðan að tryggja að Samkeppnisstofnun hafi það svigrúm sem hún þarf til áframhaldandi baráttu gegn þessum ófögnuði.

Opinber viðbrögð olíufélaganna við ákvörðun samkeppnisráðs valda mér miklum vonbrigðum. Í því sambandi verðum við að hafa í huga að enginn vafi er um sekt olíufélaganna, einfaldlega sökum þess að játningar liggja fyrir um fjölmörg brotanna. Þrátt fyrir þetta hefur ekkert olíufélaganna beðið viðskiptavini sína afsökunar eða boðið fram bætur. Engin iðrun eða tilraun til að vinna aftur traust viðskiptavina. Þess í stað lýsti stjórnarformaður eins félagsins því yfir í fjölmiðlum að hann bæri fullt traust til forstjóra félagsins sem er einn af lykilmönnum í þessu samráði. Þessi yfirlýsing er með eindæmum og að mínu viti vanvirða við almenning. Hún lýsir forherðingu.

Í þessu ljósi tel ég að taka eigi það alvarlega til skoðunar að fara að fordæmi Breta og taka upp ákvæði í samkeppnislög sem geri það kleift að banna forstjórum og öðrum stjórnendum fyrirtækja er taka þátt í samráði að gegna stjórnunarstöðum í fyrirtækjum í allt að 15 ár. Þessi regla er réttlætt í Bretlandi með vísan til þess að vernda þurfi trúverðugleik markaðarins og almennings fyrir forstjórum sem sýnt hafa það af sér að þeir eru óhæfir til að stýra fyrirtækjum samkvæmt reglum markaðarins.

Jafnframt vonast ég til þess að viðskiptaráðherra beini því til Fjármálaeftirlitsins að kannað verði að núverandi og fyrrverandi forstjórar olíufélaganna sem sitja í stjórnum banka uppfylli hæfisskilyrði laga um fjármálafyrirtæki.

Að lokum á almenningur skilyrðislausan rétt á því að lögregla ljúki rannsókn sinni og látið verði reyna á refsiábyrgð stjórnenda olíufélaganna fyrir þessa alvarlegu aðför þeirra að lífskjörum almennings í landinu.