131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[14:02]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Frú forseti. Fá mál hafa hrist jafnduglega upp í íslensku þjóðfélagi og það mál sem er hér til umræðu og er það ekki nema von. Fólki svíður eðlilega þetta ótrúlega athæfi sem var viðhaft um langt skeið hjá olíufélögunum, brotin beindust gegn almenningi og þau eru alvarleg. Samfélagslegur skaði er talinn vera metinn á um 40 milljarða kr. og sumir telja hann reyndar vera langtum meiri. Markmiðið var aukin hagnaðarvon fyrirtækjanna sem í hlut áttu, greiðendur eru íslenskir neytendur og þeim er nóg boðið.

Það jákvæða í málinu er sú staðreynd að samkeppnisyfirvöld hafa sannað getu sína til að takast á við erfiðustu og viðamestu mál sem hugsast getur þrátt fyrir að þau hafi jafnan búið við fremur rýrar fjárveitingar af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég treysti því að nú verði samstaða um það á Alþingi að efla Samkeppnisstofnun verulega og fela henni þau aðföng sem þarf til að gæta réttar íslenskra neytenda í framtíðinni. Greinilegt er að ekki er vanþörf á.

Við hljótum að spyrja okkur í kjölfar þessa máls: Hvað ber að gera til að koma í veg fyrir að ámóta atferli fái þrifist í íslensku viðskiptalífi í framtíðinni? Burt séð frá þeirri alvarlegu atlögu sem forstjórar fyrirtækjanna gerðu að íslenskum neytendum snýst málið líka um viðskiptasiðferði. Hvers vegna viðgangast slík vinnubrögð í viðskiptalífinu, í skjóli hvers viðgangast þau? Hversu langt teygir þetta samráð anga sína því að eins og fram hefur komið eru margir þeirra sem koma að stjórnun olíufélaganna gerendur víða annars staðar í viðskiptalífinu? Sumir þeirra bera jafnvel ábyrgð á því að hafa tekið þátt í samráði gegn öðrum fyrirtækjum sem þeir voru sjálfir í forsvari fyrir. Stjórnunar- og eignatengsl eru hér gríðarlega mikil en eins og menn vita tók það Samkeppnisstofnun óhemjulangan tíma að taka saman samantekt um þau tengsl og m.a. vegna fjárskorts.

Einbeitum okkur að þessum þáttum, komum í veg fyrir fleiri slík mál, tökum lagaumhverfið til vandlegrar skoðunar. Ég vil sérstaklega taka undir þá tillögu sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson lagði hér fram um að taka upp bresku regluna um setu manna í stjórnum. Slík regla væri óneitanlega til bóta.