131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[14:04]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Á þeim tímamótum sem málið er nú eftir niðurstöðu Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs er rétt að huga að því hvernig halda beri á því til framtíðar. Ég tel að í fyrsta lagi beri stjórnvöldum að leggja sig fram um að tryggja að þær sektir sem verða að lokum greiddar verði greiddar af eigendum fyrirtækjanna en ekki af almenningi. Það væri mikil háðung ef svo til tækist að olíufélögin gætu sótt sektargreiðslur í vasa almennings, þess sem er þolandi í þessu máli öllu. Það er því mikilvægt í mínum huga að tryggja að sektargreiðslurnar verði greiddar af eigendum félaganna en ekki almenningi.

Í öðru lagi ber okkur að tryggja að Samkeppnisstofnunin valdi þeim verkefnum sem henni eru falin. Mörg stór og mikil verkefni hafa verið á borði embættismanna Samkeppnisstofnunar árum saman, miklu lengur en eðlilegt er og stundum verið til skaða fyrir framgang mála. Við þurfum að bæta úr því þannig að stofnunin verði öflug og geti veitt aðilum á þessum markaði öflugt aðhald í tíma.

Í þriðja lagi þarf að upplýsa þátt einstaklinga í þessu máli og þar mega yfirvöld eins og ríkislögreglustjóraembættið ekki láta sitt eftir liggja. Menn verða að hraða rannsókn málsins, upplýsa þátt hvers og eins einstaklings sem ábyrgð kann að bera á þessu athæfi og birta þeim ákæru ef ástæða er til.

Í fjórða lagi þarf ríkissjóður að huga að því að bæta þeim skaðann sem orðið hafa fyrir honum, almenningi. Ríkissjóður hefur hagnast á þessu athæfi og það er engin ástæða fyrir ríkissjóð að sitja uppi með einhvers konar verðlaunafé fyrir ólögmætt samráð. Við eigum að bæta almenningi þann skaða sem hann hefur orðið fyrir í þessu máli.