131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[14:06]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna umræðunnar sem hér hefur farið fram er nauðsynlegt að það liggi skýrt fyrir að sú skýrsla sem liggur fyrir er niðurstaða stjórnvalds eftir að þeir sem sakaðir hafa verið um lögbrot hafa komið sínum andmælum á framfæri. Hér er því ekki um að ræða einhvers konar frumskýrslu eða drög að niðurstöðu, um er að ræða niðurstöðu stjórnvalds sem er að mestu leyti sönnuð og játuð hvað varðar þau brot sem borin eru á þá sem um ræðir.

Einnig vil ég nefna að sú hagfræðiskýrsla sem vitnað er til eru orð þeirra sjálfra sem hana skrifa. Hún fjallar ekki um samráðið á neinn hátt og þeir taka skýrt fram að þeir voru ekki upplýstir um hversu víðfeðmt þetta samráð væri þegar þeir skrifuðu hana. Þar af leiðandi segja þeir sjálfir að það dragi úr gildi þeirra eigin skýrslu.

Virðulegi forseti. Um nokkuð langt skeið hefur hér oft og tíðum farið fram umræða um samkeppnismál. Sumir flokkar á þinginu hafa slegið sér á brjóst og sagt: Við erum talsmenn samkeppninnar — a.m.k. á tyllidögum og hátíðisdögum. En það er athyglisvert að mínu viti hvernig sú umræða hefur að nokkru leyti birst í því sem kalla má samtryggingu, hvernig menn hafa að einhverju leyti lagst í vörn fyrir það sem hér hefur verið gert. Það er mitt mat að þetta mál reyni á skipulag samfélagsins, það reyni á hvort allir séu jafnir fyrir lögum, það reyni á hvort skipulagið sé það traust og sterkt að hægt sé að taka á þessu máli og það er krafa almennings í málinu. Við getum aldrei sagt um stórfyrirtæki, sem hafa aðgang að mikilli sérfræðiþjónustu, að þau hafi ekki áttað sig á að lögum hafi verið breytt og það hafi tekið þau tíu ár. (Forseti hringir.) Það eru ekki boðleg rök á hinu háa Alþingi, virðulegi forseti.