131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:54]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða 30 blaðsíðna skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðamála. Ég vil segja það í upphafi máls míns að þetta er ákaflega léleg skýrsla. Þetta er eitt það lélegasta sem ég hef lesið vegna þess að þetta er samtíningur. Ef við tökum saman skýrslu og skoðum markmið og leiðir er æskilegt að menn hafi eitthvað að leiðarljósi, geti borið saman. Menn verða að vera með einhverjar mælistærðir til að mæla árangur en ekki bara að tína saman einhver verkefni héðan og þaðan úr ráðuneytunum. Það eru alveg furðuleg vinnubrögð og skrýtið að horfa upp á það núna, sérstaklega í ljósi þess hvernig byggðir landsins standa víða.

Til að hafa eitthvert vit í svona skýrslugerð tækju menn saman þróun íbúa og einnig tækju menn saman hvort störfum væri að fækka eða fjölga í viðkomandi byggðarlagi. En það er ekki gert. Nei, það er bara samtíningur af einhverjum verkefnum og svo er ekki hægt að sjá hvort störfum fækkar eða fjölgar. Hverju skilar verkefnið? Það er ómögulegt að sjá það þegar verið er að lesa í gegnum þessi verkefni.

Ég var búinn að fara í gegnum helminginn af skýrslunni í fyrri ræðu minni og m.a. kominn í gegnum fjarskipti. Þar þarf að gera verulega bragarbót, bæta fjarskiptakerfið og jafna gagnaflutning til landsbyggðarinnar.

En meginatriðið raunverulega í skýrslunni er það sem á vantar, umfjöllun um meginatvinnuvegi landsbyggðarinnar. Lítið er fjallað um sjávarútvegsmál, nánast ekkert. Ein helsta aðgerð Framsóknarflokksins, þar sem þeir stóðu allir saman sem einn, meira að segja hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, var að kvótasetja trillurnar. Það er nú eitt af því sem kemur landsbyggðinni og Norðvesturkjördæminu — sem hæstv. forsætisráðherra sagði að kominn væri tími til að fara að athuga — mjög illa, sérstaklega norðanverðum byggðunum. Það ættu allir að sjá. Það er ekkert fjallað um það.

Eini kaflinn um sjávarútvegsmál er um AVS-sjóðinn sem er skammstöfun á „aukið virði sjávarfangs“. Sá sjóður er einmitt eins og ekki á að skipuleggja rannsóknasjóði. Þar er búið að hólfa niður 200 millj. kr. í ákveðna rannsóknarflokka þar sem hagsmunaaðilar í viðkomandi atvinnugrein, fiskeldi, þeir sem fara fyrir hópnum þar, eru leiðandi í fiskeldi. Það væri miklu nær og miklu betra fyrir landsbyggðina að auka hreinlega fé til samkeppnissjóða en ekki að hólfa þetta rannsóknafé niður og hafa síðan hagsmunaaðila í forsvari fyrir því hvaða rannsóknir á að fara í og hverjar ekki. Það er ekki vænlegt til árangurs.

Síðan spurði ég fyrr í umræðunni hvort rafmagnsverð til fyrirtækja á landsbyggðinni mundi hækka eða lækka og það væri mjög fróðlegt að fá svör við því hjá hæstv. iðnaðarráðherra. Eins og staðan er núna er rafmagn sem fyrirtæki á landsbyggðinni greiða 30% hærra en það sem fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu greiða. Auðvitað er löngu orðið tímabært að jafna þann mun ef menn meina eitthvað með byggðaáætlunum og fagurgala um að jafna búsetuskilyrði og allt það. Stundum virðist þetta vera algjört þvaður sem engin meining er á bak við.

Maður sannfærist eiginlega um það þegar maður les í gegnum skýrsluna. Það er verið að telja upp verkefni og meira að segja verkefni sem koma landsbyggðinni varla við. Jú, þau koma henni við en því miður hefur fjármagnið í þeim verkefnum mestmegnis runnið til höfuðborgarsvæðisins.

Þá vil ég nefna fráveitumál í kafla á bls. 23:

„Unnið er samkvæmt lögum nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Ríkið tekur þátt í kostnaði ...“ og svo segir hér áfram að heildarframlag ríkisins til fráveitumála verði 2,2 milljarðar. Í skýrslu um byggðamál hefði maður haldið að þessir fjármunir hefðu þá runnið til byggðanna. Nei, þessir fjármunir hafa mestmegnis runnið til höfuðborgarsvæðisins, og það sem landsbyggðin þarf helst á að halda er að farið verði í raunverulegar undirbúningsrannsóknir og það verði metið hver raunveruleg þörf er á því að fara í dýrar mengunarvarnir á fámennum stöðum. Nei, þetta er í kafla um fráveitumál þótt það ætti betur heima í kafla um höfuðborgarsvæðið því ég hugsa að þangað hafi 80% runnið af þeim 2,2 milljörðum sem eru taldir upp í skýrslu um byggðamál.

Síðan eru fleiri kaflar hérna. Það er námskeið um klasa, langur kafli um það á bls. 20, og eftir því sem ég kemst næst í þeim kafla er þetta eflaust ágætisnámskeið, tveggja daga námskeið sem var haldið í Reykjavík. Ég veit í rauninni ekki hvað það hefur fjölgað mörgum störfum, eða fækkað. Hefur þetta fjölgað störfum? Það væri fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort þarna hafi náðst verulegur árangur. Svona getur maður lengi haldið áfram.

Meðal annars er fjallað um heilbrigðismál og í rauninni er alveg ómögulegt að átta sig á þeim kafla. Þetta er almennt hjal um fjarlækningar og bráðarannsóknir, fjarlækningar fyrir sjómenn — ef við erum að ræða byggðamál ættum við náttúrlega að vera að fara yfir það hvað þetta hefur fjölgað eða fækkað störfum. Mér hefði þótt það eðlilegt en það kemur ekki hér fram.

Svo er kafli á bls. 22 um þjóðgarða. Störfum þar hefur fjölgað um þrjú. Það verður að þakka sérstaklega fyrir það. Þar er vel að verki staðið, það eru þrjú störf þar.

Í mörgum þeirra verkefna sem við ræðum um nú kemur ekkert fram um árangur þeirra.

Á bls. 18 er eitt mál sem alltaf er verið að tala um, endurgreiðsla námslána. Það er búið að tala mikið um það og ekkert gerist. Þetta er rosalega flókið mál. Ég veit eiginlega ekki hvar það ætlar að enda. Mér finnst hreinlegra að menn bara segi: Nei, við ætlum ekki að gera þetta, í staðinn fyrir að gefa einhvern ádrátt um að þetta verði mögulega gert. Ég eiginlega skil ekki hvað hæstv. byggðamálaráðherra er að fara.

Ef maður fer yfir skýrslu um íbúaþróun og atvinnuþátttöku í sjávarbyggðum landsins er augljóst að fjölmörg störf hafa tapast. Það á að tala um hlutina eins og þeir eru en ekki einhver verkefni út og suður sem segja ekki neitt og er erfitt að átta sig á.

Förum aftur í landbúnaðarmálin. Ég ræddi um trillurnar áðan og það mál telst aðför að landsbyggðinni. Nú hefur hæstv. landbúnaðarráðherra verið í þeim verkum að fækka sláturhúsum, oft með mjög ómálefnalegum hætti og ekki gætt jafnræðis. Maður áttar sig ekki á því. Í rauninni væri miklu nær að hæstv. byggðamálaráðherra og landbúnaðarráðherra færu yfir það með íbúum landsbyggðarinnar hvernig best væri að auka sem mest virði landbúnaðarafurða á þeim stöðum sem afurðirnar eru framleiddar. Ég tel að miklu nær væri að hafa þá stefnu að vera með minni sláturhús og vera úti í byggðunum í staðinn fyrir, eins og stefnan er nú, að menn fækki sláturhúsum og fari út í að uppfylla kröfu sem er í rauninni lítið annað en viðskiptalegar hindranir, tæknilegar viðskiptahindranir Evrópusambandsins. Ríkisstjórnin er að eltast við þær og notar til þess ómældar fjárhæðir. Hún notar mjög háar upphæðir til að fækka störfum. Þetta er alveg furðulegt. Hún notar mikið fé til að skaða landsbyggðina, notar skattfé almennings til þess.

Maður verður líka að virða það sem vel er gert. Það er þarna ágætisverkefni um rafrænt samfélag sem virðist skila þó nokkrum störfum, átta störfum sýnist mér. Ég hefði talið miklu nær að vera með fleiri svoleiðis verkefni í staðinn fyrir að fara í aðgerðir sem ganga þvert á hagsmuni landsbyggðarinnar.

Svo er þessi tónn gagnvart okkur landsbyggðarfólki sem mér finnst algerlega óþolandi, tónn sem kom m.a. fram um daginn í umræðunni um að Byggðastofnun hefði verið flutt út á land. Auðvitað á hún að vera úti á landi. Ég tel að ég sem íbúi á Sauðárkróki eigi ekkert að þakka það sérstaklega. Mér finnst bara eðlilegt að Byggðastofnun sé þar og að verkefni séu flutt í meira mæli út á land. Það má bera það saman, eins og ég sagði fyrr í umræðunni, að ætlast væri til að fólk á höfuðborgarsvæðinu þyrfti að þakka sérstaklega fyrir að einhver stofnun í borgarmálefnum væri staðsett t.d. fyrir austan og flutt til höfuðborgarinnar. Það væri alger fjarstæða að þakka það sérstaklega. Það væri bara eðlilegur hlutur.

Ef skynsemi væri í efnahagsstjórninni núna og menn ætluðu að vera sniðugir væri stefnan sú að fjölga störfum í meira mæli úti á landi. Hér hefur verið þensla en samdráttur úti á landsbyggðinni en samt er ekkert brugðist við. Verið er að draga saman í heilbrigðisstofnunum víða í Norðvesturkjördæminu þrátt fyrir orð hæstv. forsætisráðherra. Það sýnir hvað mikið er að marka hvað þessir háu herrar segja. Forsætisráðherra segir að komið sé að Norðvesturkjördæminu en þegar farið er yfir fjárlagafrumvarpið er þar samdráttur. Það væri fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv. byggðamálaráðherra hver stefnan er varðandi það kjördæmi sem stendur hvað verst. Þá á ég við norðurhlutann.

Það er a.m.k. ekki mikið samræmi í orðum og athöfnum. Ég tel vænlegra upp á framtíðina að gera að þegar hæstv. byggðamálaráðherra kemur hér næst með skýrslu verði hún betur úr garði gerð. Það verður að gera þá kröfu. Það er mjög auðvelt að gera betur. Ég hef verið að kynna skýrsluna á fundum um landið og fólk er rosalega hissa á því að hægt sé að búa svona til og svo eigi að ræða þessa vitleysu þar sem ekki eru notaðar neinar mælistikur. Ég veit eiginlega ekki hvað menn ætla sér með svona vinnubrögðum.

Það væri fróðlegt að heyra hvers vegna ekki var farið yfir það hversu mörgum störfum verkefnin skiluðu. Hvers vegna hafa menn ekki einhverjar mælieiningar til að bera saman? Það er með öllu óskiljanlegt.

Ég tel það forsenduna fyrir því, ef við ætlum að halda áfram að ræða byggðamál, að við séum ekki að ræða hérna einstök verkefni, hvort sem það eru svona voðaverk, vil ég segja, eins og að setja trillurnar í kvóta og fækka sláturhúsum, að við ræðum málin á vitrænum grunni þar sem við förum yfir íbúaþróun í sjávarbyggðunum og skoðum t.d. hvaða áhrif aðgerðir eins og að fækka sláturhúsum hafa. Ég hefði talið það og ég mælist til þess að hæstv. byggðamálaráðherra geri betur en þetta. Þetta er ákaflega slöpp skýrsla, ég segi ekki meira.