131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Verðsamráð olíufélaganna.

[15:08]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er alveg fráleitt af hæstv. forsætisráðherra að hlaupa í þessa vörn fyrir olíufélögin. Er þetta forsætisráðherra olíufélaganna? Ég spyr.

Málið er einfaldlega þannig að það liggur fyrir að olíufélögin hafa með rangindum tekið af fólki 6 milljarða. Það liggur fyrir að það á að sekta þau um 2,6 milljarða. En það liggur líka fyrir að olíufélögin hafa beðist afsökunar opinberlega. Þau virðast a.m.k. í orði kveðnu iðrast og það hlýtur að vera réttur samfélagsins að óska eftir því að þau bæti að fullu þann skaða sem þau hafa unnið einstaklingum og fyrirtækjum.

Það liggur líka fyrir að mati lögfræðinga að það verði ákaflega erfitt fyrir einstök fyrirtæki og einstaklinga að leita réttar síns. Þess vegna er fullkomlega rökrétt að gengið sé eftir því að þau bæti samfélaginu í heild þann skaða sem þau hafa unnið.

Það er enginn að tala um að grípa inn í dómsvaldið. Það er enginn að tala um að rugla með einhverjum hætti skiptingu ríkisvaldsins í hina þrjá þætti. Það er verið að tala um (Forseti hringir.) að hæstv. forsætisráðherra komi fram sem leiðtogi. Er ekki kominn tími til þess að hann fari að hafa áhyggjur af einhverju? Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki (Forseti hringir.) áhyggjur af olíufélögunum, hann hefur ekki áhyggjur af kennaraverkfallinu. Af hverju hefur hann áhyggjur?