131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls grunnskólakennara.

[15:27]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg augljóst að auðvitað eru engar slíkar áætlanir uppi. Menn verða að sjálfsögðu að bíða eftir þeirri niðurstöðu sem verður og gefa launanefndum sveitarfélaganna og kennaranna tækifæri til að ræða þá stöðu.

Ég vil taka það fram út af ummælum hv. þingmanns að auðvitað verður aldrei hægt að bæta algjörlega upp slíka töf á námi sem orðin er. Það er nauðsynlegt að gera það besta úr málum og það er það sem menntamálaráðuneytið vinnur að í samvinnu við skólayfirvöld og fræðsluyfirvöld og mun að sjálfsögðu gera sitt besta í þeim efnum. Það eru skólarnir sem þetta mun fyrst og fremst hvíla á, skólarnir í landinu og kennararnir munu fyrst og fremst vinna fram úr því hvernig best er að bæta upp þessa töf.