131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[15:44]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um græðara. Í kjölfar þingsályktunar um stöðu óhefðbundinna lækninga sem samþykkt var á Alþingi 3. maí 2002 skipaði ég nefnd sem falið var að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga á Íslandi og bera hana saman við stöðu mála annars staðar á Norðurlöndunum, í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum.

Verkefni nefndarinnar var að skoða stöðu óhefðbundinna lækninga, gera tillögur um hvernig koma skuli til móts við vaxandi umsvif á sviði óhefðbundinna lækninga og að taka afstöðu til þess hvort viðurkenna skuli nám í þeim með veitingu starfsréttinda. Í áfangaskýrslu nefndarinnar sem lögð var fram á Alþingi, 130. löggjafarþingi, var gerð grein fyrir upphafsvinnu nefndarinnar sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að æskilegt væri að gefa þeim græðurum kost á tiltekinni viðurkenningu hins opinbera að uppfylltum ákveðnum menntunarlegum og faglegum kröfum. Með þessu móti yrði starfsemi græðara settur ákveðinn rammi og komið á fót virku eftirliti sem væri til hagsbóta jafnt græðurum og þeim sem nýta sér þjónustu þeirra. Ákveðið var að þetta yrði best gert með lagasetningu og er frumvarpið sem hér er kynnt meginniðurstaðan af starfi nefndarinnar.

Óhefðbundnar lækningar hafa lengi verið stundaðar í einhverri mynd í öllum samfélögum. Viðhorf til þessara mála eru mismunandi milli landa, munur er á því hvaða aðferðir óhefðbundinna lækninga hafa náð fótfestu í menningu ólíkra þjóða og í hve miklum mæli almenningur nýtir sér þær. Í Noregi og Danmörku hafa nú verið sett lög um starfsemi þeirra sem vilja veita óhefðbundna meðferð og í Svíþjóð er unnið að undirbúningi að lagasetningu.

Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins kemur fram að komið skuli á fót frjálsu skráningarkerfi græðara en með því er átt við að græðurum er ekki skylt að skrá sig í skráningarkerfið heldur sé það val hvers og eins. Kveðið er á um að skráningarkerfið skuli vera í umsjá Bandalags íslenskra græðara. Í umsjóninni felst: að færa á skrá þá græðara sem þess óska að því tilskildu að þeir uppfylli skilyrði um félagsaðild, taka af skrá þá sem þess kunna að óska og afskrá þá sem ekki uppfylla lengur sett skilyrði fyrir skráningu. Mikilvægt er að umsjónaraðili með kerfinu tryggi að skráðar upplýsingar séu ávallt réttar og að allar breytingar séu færðar inn reglulega. Bandalagi íslenskra græðara er heimilt að innheimta skráningargjald af hverjum einstaklingi sem skráir sig í skráningarkerfið. Gjaldið skal vera hóflegt og einungis ætlað til að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst af rekstri og viðhaldi skráningarkerfisins. Gert er ráð fyrir að sú viðurkenning sem skráning felur í sér verði græðurum og einstökum fagfélögum þeirra hvatning til að sækjast eftir aðild að skráningarkerfinu. Aðeins þeir græðarar sem fá skráningu hafa heimild til að kynna sig sem skráða græðara á því sviði sem þeir starfa. Skráning er til marks um að þeir uppfylli tilteknar menntunarlegar og faglegar kröfur og felur í sér ákveðinn gæðastimpil sem nýtist græðurum við að kynna starfsemi sína og veitir jafnframt notendum þjónustunnar ákveðnar upplýsingar um gæði hennar. Nefndin telur að verði þetta frumvarp að lögum hafi það í för með sér ávinning fyrir þá sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara, samhliða því að starfsumhverfi græðara verður bætt.

Frumvarp til laga um græðara var sent til umsagnar fjölda aðila um miðjan júlí 2004 og voru viðbrögð almennt jákvæð. Samkvæmt frumvarpinu skal eins og áður segir komið á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara sem leggja stund á heilsutengda þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis. Með almennu heilbrigðiskerfi er átt við alla heilbrigðisþjónustu sem veitt er af löggiltu heilbrigðisstarfsfólki, hvort sem ríkið tekur þátt í kostnaði vegna hennar eða ekki. Megináhersla er lögð á neytendavernd og að efla faglega ábyrgð þeirra sem veita heilsutengda þjónustu eins og hún er skilgreind í frumvarpinu. Í athugasemd við 2. gr. frumvarpsins er nánar skýrt hvað átt er við með heilsutengdri þjónustu. Þeim sem veita slíka þjónustu hefur verið valið samheitið græðarar sem oft hefur komið fyrir í þessari framsöguræðu. Orðið er gamalkunnugt orð í íslensku máli og hentar vel til að afmarka þann fjölbreytta og sundurleita hóp sem veitir heilsutengda þjónustu eins og hún er skilgreind í frumvarpinu. Einnig hefur orðið græðari verið notað um skeið af bandalagi nokkurra fagfélaga sem veita heilsutengda þjónustu, þ.e. Bandalagi íslenskra græðara sem stofnað var árið 2000.

Fram að þessu hefur engin lögformleg skilgreining verið til á heilsutengdri þjónustu græðara. Græðarar hafa ekki notið opinberrar viðurkenningar. Samkvæmt frumvarpinu er græðurum veitt ákveðin viðurkenning af hálfu hins opinbera ef þeir skrá sig í skráningarkerfi það sem frumvarpið fjallar um. Slík skráning er háð skilyrðum og leggur vissar skyldur og faglegar kröfur á herðar einstökum fagfélögum sem fá aðild að skráningarkerfinu og þeim einstaklingum sem skrá sig í það.

Í drögum að reglugerð sem lögð eru fram sem fylgiskjal með frumvarpi þessu er kveðið á um þær kröfur sem fagfélög þurfa að uppfylla til að hljóta aðild að skráningarkerfinu. Kröfurnar lúta m.a. að menntunarlegum og faglegum kröfum sem einstaklingar þurfa að uppfylla til að teljast fullgildir félagar í viðkomandi fagfélagi.

Í meðfylgjandi drögum að reglugerð sem lögð er fram sem fylgiskjal með frumvarpinu er kveðið á um að almenningur skuli eiga greiðan aðgang að upplýsingum um hvort græðari sé skráður og í hvaða starfsgrein. Þetta er mikilvægt til þess að hver sá sem vill nýta sér þjónustu græðara geti gengið úr skugga um hvort græðari sá er hann leitar til uppfylli þær kröfur sem kveðið er á um í frumvarpi þessu og reglugerðum sem á því byggja.

Herra forseti. Frumvarpinu sem hér er lagt fram er eins og áður segir ætlað að hafa í för með sér ávinning fyrir þá sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara, jafnhliða því sem starfsumhverfi græðara verði bætt.

Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar og til 2. umr.