131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:09]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði aðeins að þakka hv. þingmanni fyrir fróðlega og góða yfirferð um þessi mál í ræðu sinni og spyrja hv. þingmann hvort hún hefði einhverja tillögu um hvernig við ættum að breyta 2. gr. Ég get alveg tekið undir það að þetta sé ekki alveg í takt við reynsluna, sérstaklega þegar litið er til fjarlægra heimsálfa varðandi þá sem sinna þessari heilbrigðisþjónustu eða heilsutengdu þjónustu þar, því vissulega má segja að í Austurlöndum byggir þessi þjónusta á gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum. Við þurfum því kannski að breyta 2. gr. og ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé með ákveðna tillögu um hvernig best væri að breyta henni. En ég er alveg sammála því að mér finnst hún eiginlega ekki geta staðið svona í ljósi þess í hverju þessi heilsutengda þjónusta felst úti í hinum stóra heimi.

Síðan get ég tekið undir með hv. þingmanni í sambandi við takmarkanir á auglýsingunum. Ég get ekki séð að við eigum að takmarka það eitthvað miðað við hvernig þetta er í dag. Nuddarar og aðrir geta auglýst í dag og mér finnst engin ástæða til að við þurfum þrengja það eitthvað þó að komið sé ákveðið starfsumhverfi í kringum þjónustu þessara hópa.