131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:40]

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég staldraði aðeins við það sem hv. þm. sagði rétt áðan varðandi þjónustu græðara þegar þeir koma inn á heilbrigðisstofnanir. Ég lít öðruvísi á þessa grein eða skil hana á annan hátt en hv. þm. Mér virðist að þetta eigi við ef sjúkrahúsin taka ákvörðun um að tiltekin þjónusta, sem er þá veitt innan veggja sjúkrahússins, gæti þá verið í höndum græðara en gæti hins vegar einnig verið í höndum löggiltra starfsstétta. Eins og ég rakti í máli mínu áðan er í ýmislegt í störfum löggiltra fagstétta, t.d. hjúkrunarfræðinga og sjúkraþjálfara, sem græðarar sinna einangrað og veita eingöngu þá þjónustu.

Ég lít svo á að ef sú þjónusta er veitt inni á sjúkrahúsi vegna tilvísunar frá þá heilbrigðisstéttum, hjúkrunarfræðingum, læknum eða öðrum sem um það hafa að segja, þá sé það greitt af viðkomandi heilbrigðisstofnun en ekki af sjúklingnum sjálfum, sé sú meðferð veitt vegna tilvísunar frá heilbrigðiskerfinu.

Það verður áhugavert að heyra svar hæstv. ráðherra á eftir varðandi þetta atriði en ég gat ekki á mér setið að koma upp og ræða þetta mál. Það skiptir verulegu máli.