131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:47]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem fram hefur farið um þetta mál og þær jákvæðu undirtektir sem frumvarpið hefur fengið. Það er rétt að þetta er ekki í fyrsta skipti sem það kemur til kasta þingsins, fyrst í formi þingsályktunar og síðan afrakstur samþykktarinnar nú í frumvarpi.

Nokkrum spurningum hefur verið beint til mín og ég ætla að reyna að svara þeim eftir bestu getu. Ég veit að síðan fer heilbrigðis- og trygginganefnd vandlega yfir frumvarpið.

Í fyrsta lagi var spurning frá hv. 4. þm. Reykv. s. um heilsutengda þjónustu, hreyfingu og líkamsrækt, hvort ég sé reiðubúinn að standa að frumvarpi um slíkt. Því er til að svara að ég er opinn fyrir öllu sem varðar neytendavernd og að setja reglur um að fagleg sjónarmið ráði varðandi þá þjónustu sem veitt er utan hins almenna heilbrigðiskerfis, eins og stendur í 2. gr. frumvarpsins. Ég get ekki sagt um það á þessu stigi með hverjum hætti slíkt yrði eða með hvaða hætti slíkt bæri að en þetta frumvarp ber með sér að ráðuneytið er reiðubúið að skoða þau mál.

Síðan var staðnæmst við orðalag í 2. gr.: „Með heilsutengdri þjónustu græðara er átt við þjónustu sem einkum tíðkast utan hins almenna heilbrigðiskerfis og byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum.“ — Það er alveg rétt að hefð, reynsla og vísindalegar niðurstöður, áreiðanlegar líka þótt mig bresti þekkingu til að tala tæmandi um þau mál, eru mismunandi eftir því hvaða menningarheim við búum við. Ég hef heimsótt bæði spítala og lyfsölu í Kína og það eru mjög ólíkar hefðir sem þar eru uppi, m.a. í lyfsölunni þar sem menn standa með vigt og vigta jurtir í poka. Síðan er biðröð eftir þeim og það er talið bara hefðbundið og langreynt sem þar er selt.

Auðvitað gæti nefndin farið ofan í þetta orðalag og fengið þau sjónarmið sem uppi eru um þetta en frumvarpið ber vissulega keim af því að þarna er verið að samræma ýmis sjónarmið. Ég held að þetta sé atriði sem væri rétt fyrir nefndina að kalla eftir umsögnum um, en umsagnir um frumvarpið eru til í stórum bunkum eins og greinargerðin ber með sér.

Frumvarpið samræmir ýmis sjónarmið. Af þeirri rót er 1. mgr. 2. gr. þar sem sagt er: „Með orðinu græðari í lögum þessum er átt við þá sem leggja stund á heilsutengda þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis.“ — Orðalagið „heilsutengd þjónusta“ er angi af þessu.

Varðandi auglýsingarnar í 8. gr. er um heimildarákvæði að ræða og það eru engin áform um það, a.m.k. ekki hjá mér, að fara að herða reglur í þessu efni. Hins vegar er þá miðað við að sambærilegar reglur gildi og um auglýsingar annarra heilbrigðisstétta. Síðan er það aftur mál sem við gætum rætt. Auðvitað þarf að fara fram umræða um hvernig auglýsingar í almenna heilbrigðiskerfinu eru, hvort við höfum gengið þar of langt eða hvort ástæða er til að breyta þar til á einhverjum póstum. Við erum með tiltölulega strangar reglur í því eins og kom fram hjá hv. þm. Ástu Möller. Það er aftur sérmál en ég undirstrika að þarna er um heimildarákvæði að ræða.

Síðan voru nokkur skoðanaskipti um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í þessari starfsemi. Í 2. gr. kemur fram að hér er átt við þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis sem Tryggingastofnun ríkisins tekur ekki þátt í. Það er hin almenna regla. Ef svo skyldi hins vegar fara að spítalar kölluðu eftir þjónustu græðara og sjúklingurinn væri lagður inn á spítala hygg ég að það sama mundi gilda um hann og aðra sem eru lagðir inn á spítala. Ég tel að þar sem rætt er um heilbrigðisstofnanir í þessu sambandi eigi þetta við um þjónustu spítala. Ég veit reyndar ekki í hve ríkum mæli slíkt mundi verða eða hvort einhver dæmi eru fyrir slíku, að spítalar mundu kalla eftir þjónustu græðara inn á stofnun sína. Ég hygg að ef svo væri og sjúklingurinn væri skráður inn mundu gilda um hann sömu reglur og um aðra sem þar liggja. Þetta er sú tilfinning sem ég hef fyrir þessu máli.