131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Nýting stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

53. mál
[17:33]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka 1. flutningsmanni þessarar tillögu fyrir þann áhuga sem hún sýnir með því að flytja hana. Hér er hreyft mjög stóru og vandasömu máli sem þarfnast umræðu og vinnu. Framlögð tillaga felur í sér að gerð verði úttekt á kostum og göllum þess að heimila nýtingu stofnfrumna úr fósturvísum manna til rannsókna og lækninga á alvarlegum sjúkdómum. Tillagan gerir ráð fyrir að skipuð verði nefnd og einnig er lagt til hverjir skipi hana. Nefndin á að skila af sér eftir rúmlega ár.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur látið sig vísindasiðfræði miklu skipta, þar með er talin umræða um stofnfrumur. Við höfum tekið þátt í samráði innan lands og á erlendum vettvangi, bæði innan Norðurlandanna og á Evrópuvettvangi og á alþjóðlegum vettvangi. Ýmsir þættir vísindasiðfræði hafa á margan hátt þótt til fyrirmyndar hér á landi og vakið athygli.

Núgildandi lög sem snerta rannsóknir á stofnfrumum eru fyrst og fremst lög nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun, en þar eru hvers konar rannsóknir á fósturvísum bannaðar ef þær eru ekki þáttur í glasafrjóvgunarmeðferð eða sjúkdómaleit í fósturvísunum sjálfum. Þessi lög eru orðin átta ára gömul. Margt mælir með því að úttekt verði gerð að nýju á málinu í heild sinni út frá þeim sjónarmiðum sem það snerta, svo sem læknisfræði, siðfræði og trúmálum.

Ég undirstrika að það er mikil þörf á umræðu í þessu efni og mér er kunnugt um að fyrirhuguð er ráðstefna um þau í vetur, en það tel ég vera mjög af hinu góða. Víða hefur komið fram að mörg lönd hafa losað um hömlur sínar á rannsóknum á þessu sviði, en eigi að síður er ljóst að miklar rannsóknir eru fram undan áður en læknisfræðilegt notagildi þessara frumna verður ljóst.

Ég tel eðlilegt að þessi mál verði skoðuð. Ég tel að tillaga flutningsmanns eigi að njóta allrar athygli og fá ítarlega og jákvæða meðferð hér á Alþingi. Ég vil ekki svara fyrir fram spurningum sem snerta niðurstöður um fjármagn til rannsókna og lækninga alvarlegra sjúkdóma. Tillagan gerir ráð fyrir að skipuð verði nefnd sem fari yfir þau atriði. Ég undirstrika að þetta er stórt og vandasamt mál og að ítarleg umræða þarf að fara fram um það, en tillagan vísar í þá átt að sú vinna verði sett af stað. Afstaða mín til málsins er jákvæð en að öðru leyti er það í valdi þingsins að ákveða hvað gert verður.