131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Nýting stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

53. mál
[18:08]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka þá jákvæðu umræðu sem fram hefur farið um málið. Hún hefur verið öfgalaus og menn verið opnir fyrir því að skoða málið út frá öllum hliðum en gera sér auðvitað virkilega grein fyrir því að hér er á ferðinni mjög stórt mál sem þarf að skoða mjög vandlega og út frá ýmsum hliðum, læknisfræðilegum, siðferðilegum og trúarlegum sjónarmiðum. Ég fagna því hve þingmenn eru jákvæðir fyrir því. Það er afar gott innlegg í málið að fá þau jákvæðu viðbrögð sem fram komu hjá hæstv. ráðherra og reyndar einnig fulltrúum stjórnarflokkanna sem hafa talað, formanni heilbrigðis- og trygginganefndar, Jónínu Bjartmarz, hv. þm. Ástu Möller og hv. þm. Pétri H. Blöndal. Við fögnum því, aðrir flutningsmenn sem hafa líka talað, hve jákvæð viðbrögð málið fær.

Það er alveg ljóst að vísindamenn hafa verið að kalla eftir því að þjóðþingið taki upp þá umræðu sem á sér stað og hefur átt sér stað á undanförnum missirum og árum á öllum þjóðþingum í kringum okkur. Vísindasamfélagið hefur kallað eftir því að sú umræða fari einnig fram á þessu þjóðþingi. Ég hef fundið fyrir afar sterkum viðbrögðum frá fagfólki og vísindafólki við tillögunni þar sem henni er mjög fagnað og ég er viss um að viðbrögðin við umræðunni í þessum sal gleðji það fólk þegar það heyrir hve vel því er tekið að ráðast í þessa athugun.

Það er reyndar svo að þó að við mundum samþykkja þingsályktunartillögu um heimild til nýtingar stofnfrumna úr fósturvísum manna til rannsókna og lækninga á alvarlegum sjúkdómum, að þá er það líka hagur þeirra sem væru á móti því að það fari fram umræða um kosti og galla út frá þeim sjónarmiðum sem við höfum talað um. Ég hvet til þess, ef tillagan verður samþykkt og þó að hún verði ekki samþykkt — en mér heyrist hljómgrunnur vera fyrir henni — að umræðan fari fram um það úti í þjóðfélaginu og ekki síst innan heilbrigðis- og vísindasamfélagsins.

Það er auðvitað ekki nægjanlegt að samþykkja bara tillöguna eins og hún er lögð upp. Vísindamenn þurfa þannig aðbúnað að þeir geti farið í þessar rannsóknir. Við eigum mjög menntað vísindafólk og okkur ber skylda til þess að búa þeim þá aðstöðu hér á landi að þeir geti sinnt þessari vísindagrein þannig að við missum þá ekki alla úr landi heldur gerum þeim kleift að fara í þessar rannsóknir hérna og að við eflum allan aðbúnað og aðstöðu þeirra til að fara út í stofnfrumurannsóknir. Við verðum líka að veita til þess nauðsynlegt fjármagn svo, eins og ég segi, að vísindamenn okkar og vísindasamfélagið sé í stakk búið til að takast á við þá byltingu sem við sjáum hugsanlega í framtíðinni á læknasviðinu með því að fara út í að heimila nýtingu á stofnfrumum úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

Hér hefur aðeins verið komið inn á nefndina sem á að fela þetta verkefni. Ég skoðaði það mjög vandlega með meðflutningsmönnum mínum hvernig nefndin ætti að vera skipuð. Við leggjum til að nefndina skipi fulltrúi landlæknisembættisins, Læknafélags Íslands, Siðfræðistofnunar, Prestafélags Íslands, vísindasiðanefndar, læknadeildar Háskóla Íslands, Landspítala – háskólasjúkrahúss, Krabbameinsfélagsins og heilbrigðisráðuneytisins. Ég held að nefndin sé mjög faglega og vel skipuð. Það má vel vera, eins og hv. þm. Jónína Bjartmarz nefndi áðan, að taka ætti fulltrúa frá lögfræðistéttinni í hópinn en þeir voru í þeim hópi sem var talin ástæða til þess að spyrja sérstaklega í sérstakri rannsókn og könnun um afstöðu þeirra við að fara út í að heimila nýtingu á stofnfrumum eins og hér er lagt til.

Ég held að sú nálgun sem er í tillögugreininni, að kanna fyrst og fremst kosti og galla og menn meti þá og fari svo út í það sem ég tel að þurfi að fylgja með, að búa vísindamönnum okkar aðstöðu til þess að sinna því að fara út í þessar rannsóknir, sé afar mikilvæg. Við getum ekki eingöngu breytt lagaumhverfinu og heimilað að hægt sé að fara út í slíkar rannsóknir eins og hér er lagt til, heldur skiptir líka máli að við fylgjum því vel eftir þannig að veitt verði nauðsynlegt fjármagn til þess að hægt verði að fara af fullum metnaði út í þessar rannsóknir ef þær verða heimilaðar, bæði til rannsókna og lækninga á alvarlegum sjúkdómum.

Virðulegi forseti. Ég sé enga ástæðu til þess að tefja málið eða störf þingsins frekar vegna þess að hér eru komin fram afar mikilvæg og jákvæð viðhorf þeirra þingmanna sem hér hafa talað, bæði úr stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu, og ekki síst hæstv. ráðherra sem vekur vonir um að tillagan fái jákvætt brautargengi á þingi og verði vonandi samþykkt sem allra fyrst eftir að hún hefur fengið þinglega meðferð í hv. heilbrigðisnefnd.