131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Nýting stofnfrumna úr fósturvísum til rannsókna og lækninga.

53. mál
[18:15]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsti því yfir í ræðu minni áðan að ég styddi málið, aðallega út frá því að það gengur út á að skoða þessi mál, hvetja til umræðunnar og að aðilar vísindasamfélagsins komi saman hver út frá sínu sjónarhorni, siðfræðingar, trúfræðingar, læknar o.fl.

Mér fannst aðeins í seinni ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, 1. flutningsmanns frumvarpsins, að hún væri komin svolítið á undan sér, að það þyrfti að skapa læknunum starfsumhverfi til að sinna þessum rannsóknum og það kostaði fjármagn. Ég er alveg sammála því að ef niðurstaðan verður sú á Alþingi að þetta verði það sem meiri hluti Alþingis vill og við viljum gera þá þarf auðvitað að tryggja fjármagnið. Ástæðan fyrir því að ég kem upp núna er kannski fyrst og fremst og eingöngu til að árétta að málið gengur eingöngu út á það að gera úttekt á kostum og göllum, fá fram afstöðu með og á móti, rök með og á móti því að heimila þetta. Það var á þeirri forsendu sem ég studdi málið þó að ég útiloki ekki að að þeirri úttekt lokinni, ef niðurstaðan er sú að það eigi heimila þetta og breyta lögunum, að þá þurfi auðvitað fjármagn að fylgja. Málið gengur út á að gera úttekt á kostum þess og göllum út frá læknisfræðilegum, siðfræðilegum og trúarlegum sjónarmiðum að heimila nýtingu stofnfrumna úr fósturvísum manna til rannsókna og lækninga á alvarlegum sjúkdómum. Ég styð þá afstöðu eins og ég gerði grein fyrir fyrr í ræðu minni.