131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[14:04]

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra sagði áðan að málið væri grafalvarlegt og það eru orð að sönnu. Ég óttast að þessi deila verði ekki leyst fyrr en nær dregur jólafríi.

Mér finnast þó sýnu alvarlegri þau orð og ummæli sem hv. formaður Samfylkingarinnar hafði uppi áðan þegar hann sagði að samningsaðilar treystu ekki þeim samningi sem nú var felldur vegna þess að verðbólgan væri úr böndum. Hann sagði að verðbólgan væri úr böndum og að þeir treystu ekki efnahagsástandinu. Mér finnst hv. formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, bíta í skottið á sjálfum sér og hlaupa í hringi.

Við vitum að ef farið verður að fyllstu kröfum kennara þá fyrst fer verðbólgan úr öllum böndum og þá fyrst eru allir kjarasamningar komnir upp fyrir þau rauðu strik sem sett hafa verið.

Mig langaði í þessari umræðu að draga fram þá þætti sem ekki hafa verið mjög mikið í umræðunni að mér finnst varðandi þessa kjaradeilu, þ.e. vinnutímatilhögun kennara. Hún er með allt öðrum hætti en við þekkjum á okkar hefðbundna vinnumarkaði. Mér sýnist sem kennarar skili á bilinu 130–140 klukkustundum í vinnu á mánuði (ÖJ: Svona eins og þú) en almenningur á þessum vinnumarkaði sem vissulega er í spennu er á bilinu 200–250 tímar á mánuði. (Gripið fram í: Það er rugl.) Það er það sem fólk er að tala um í dag og það er munur þar á. Margir spyrja spurninga út af þessu.

Í þessari umræðu hefur verið rætt þó nokkuð um agavandamál í skólunum, og mér er spurn hvort í þeirri umræðu sem verið hefur sé tekið rétt og faglega á þeim þætti mála. Ég var fyrir skemmstu í Bandaríkjunum þar sem verið var að lýsa agamálum í skólum og þau eru með allt öðrum hætti en hér tíðkast. (ÖJ: ... aga kennara?)