131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Lánasjóður sveitarfélaga.

269. mál
[14:10]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Lánasjóð sveitarfélaga. Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga sem ætlað er að leysa af hólmi lög nr. 35/1966.

Lánasjóður sveitarfélaga er sameign allra sveitarfélaganna í landinu og starfar samkvæmt lögum undir yfirumsjón ríkisstjórnar. Meginmarkmið sjóðsins samkvæmt lögunum er að stuðla að því að íslensk sveitarfélög geti útvegað sér eins hagstætt lánsfé og kostur er á hverjum tíma. Með frumvarpi því sem hér er mælt fyrir er ekki ætlunin að víkja frá því meginmarkmiði en vegna breytinga á fjármálalegu umhverfi og þróunar sveitarfélaga var kominn tími til að endurskoða ýmis ákvæði laganna sem að mörgu leyti eru úr sér gengin.

Fyrirhugaðar breytingar á lagaumhverfi sjóðsins voru unnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og stjórn lánasjóðsins og miða þær fyrst og fremst að því að aðlaga rekstur sjóðsins eftir því sem kostur er að almennum starfsskilyrðum fjármálafyrirtækja á fjármálamarkaði og draga verulega úr afskiptum ríkisins af stjórn og rekstri sjóðsins.

Mun ég nú gera nánari grein fyrir helstu breytingum sem felast í frumvarpinu.

Samkvæmt gildandi lögum skipar félagsmálaráðherra stjórn lánasjóðsins og fjármálaráðherra skipar endurskoðendur hans. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að æðsta vald í málefnum sjóðsins verði fært til sveitarfélaganna. Gert er ráð fyrir að svokallaður eigendafundur, þar sem sæti eiga fulltrúar sem sveitarfélögin hafa kosið til setu á landsþingum Sambands íslenskra sveitarfélaga, fari með æðsta valdið í málefnum sjóðsins, kjósi honum stjórn og endurskoðanda og samþykki ársreikning og skýrslu stjórnar. Enn fremur er gert ráð fyrir að lánasjóðurinn muni framvegis starfa sem lánafyrirtæki eftir lögum um fjármálafyrirtæki undir eftirliti og á grundvelli starfsleyfis Fjármálaeftirlitsins.

Í tengslum við framangreindar breytingar eru með frumvarpinu felld brott fjölmörg ákvæði gildandi laga sem kveða í smáatriðum á um stjórn, rekstur og útlánastarfsemi sjóðsins. Eðlilegra er að slík ákvæði verði að finna í samþykktum lánasjóðsins sem eigendafundur samþykkir og starfsreglum sem stjórn sjóðsins setur og þá í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki og lög um hlutafélög eftir því sem við á.

Ein mikilvægasta breytingin sem tengist því að færa rekstrarskilyrði sjóðsins í átt að því sem almennt gerist á fjármálamarkaði er niðurfelling árlegra framlaga til sjóðsins úr ríkissjóði og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Fjárhagsstaða lánasjóðsins er sterk og ekki er talin þörf á slíkum framlögum til að tryggja meginmarkmið sjóðsins. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga skal árlegt framlag jöfnunarsjóðs til lánasjóðsins nema 6,1% af tilgreindum tekjum jöfnunarsjóðsins eða sem nemur nú um 250 millj. kr. á ári. Á undanförnum árum hafa framlögin þó þrívegis verið skert í samræmi við samkomulag um að þeir fjármunir rynnu til stofnframkvæmda við einsetningu grunnskólans. Enn fremur má geta þess að ríkissjóður hefur ekki lagt sjóðnum til fjármuni frá árinu 1983 þar sem ekki hefur í fjárlögum verið kveðið á um slíkt.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sjóðnum verði heimilt að lána stofnunum og fyrirtækjum sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga, eða sveitarfélaga og ríkissjóðs. Enn fremur getur sjóðurinn veitt ábyrgð á lánum sveitarfélaga og stofnana eða fyrirtækja í þeirra eigu í stað beinnar lánveitingar ef það er talið hagstæðara fyrir lántakann. Eins og áður sagði er fjárhagsstaða sjóðsins sterk en vegna lánastefnu hans hafa lánveitingar að mestu verið takmarkaðar við eigið fé sjóðsins.

Hæstv. forseti. Sjóðurinn uppfyllir auðveldlega lágmarkskröfur laga um fjármálafyrirtæki um eigið fé enda var eiginfjárhlutfall hans í lok árs 2003 um 71%. Útlán sjóðsins til sveitarfélaga voru á sama tíma um 12,6 milljarðar sem samsvarar u.þ.b. 9% af heildarskuldum sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra við lánastofnanir. Er það mun lægri hlutdeild en hjá samsvarandi lánasjóðum í öðrum norrænum ríkjum.

Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og reglugerð þar sem vægi krafna og sveitarfélaga er ákveðið 20% þyrfti eiginfjárhlutfall sjóðsins ekki að vera nema 1,6% sem er nálægt meðaltali systursjóða lánasjóðsins á Norðurlöndum. Fyrirhugaðar breytingar á lagaumhverfi sjóðsins munu því auka samkeppnishæfni hans til muna, hæstv. forseti, og skerpa á forræði sveitarfélaganna á sjóðnum. Að öðru leyti vísa ég við þessa umræðu til athugasemda við frumvarpið og einstakra greina þess.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. félagsmálanefndar og 2. umr.