131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa.

236. mál
[14:26]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rannsóknarnefnd umferðarslysa.

Um síðustu áramót voru umferðar- og umferðaröryggismál flutt til samgönguráðuneytis frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu með breytingu á reglugerð um Stjórnarráð Íslands.

Í upphafi þessa árs var hafin vinna í samgönguráðuneytinu við endurskipulagningu þessa málaflokks á tvennum vígstöðvum. Annars vegar með undirbúningi þingsályktunartillögu um umferðaröryggismál fyrir árin 2005–2008 sem lögð verður fyrir Alþingi innan tíðar. Til þess að halda utan um það verk var skipaður sérstakur stýrihópur og var honum falið að móta nýja heildarstefnu í umferðaröryggismálum, endurmeta markmið og útbúa framkvæmdaáætlun um umferðaröryggisaðgerðir. Hins vegar var hafist handa við undirbúning löggjafar um rannsóknarnefnd umferðarslysa. Var farið yfir stjórnsýslu málaflokksins og er árangur þess starfs m.a. það frumvarp sem hér liggur fyrir. Var m.a. leitað umsagnar rannsóknarnefndar umferðarslysa, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, Sambands íslenskra tryggingafélaga og Umferðarstofu.

Ég vil að gefnu tilefni ítreka það sérstaklega að hlutverk lögreglu við rannsókn umferðarslysa mun ekki breytast með þessu frumvarpi. Umferðarslysin hér á landi eru óásættanleg með öllu. Því þarf að leita allra leiða til að koma í veg fyrir slysin. Áður en ég geri grein fyrir frumvarpinu vil ég fara nokkrum orðum um þau markmið í umferðaröryggismálum sem ég hef sett fram.

Í fyrsta lagi verður einbreiðum brúm á þjóðvegum landsins fækkað skipulega. Þessar slysagildrur eru allt of margar en endurbygging þeirra tekur sinn tíma. Á næstu tólf mánuðum er gert ráð fyrir að 20 einbreiðar brýr verði teknar úr notkun.

Í öðru lagi verði mikið lagt í það að ná samkomulagi við sveitarstjórnir í kringum landið að banna lausagöngu búfjár og hrossa, sérstaklega við þjóðveg 1. Lausagangan skapar mikla hættu.

Í þriðja lagi verða slysarannsóknir efldar, m.a. með lögfestingu þess frumvarps sem hér er til umræðu. Fjárfesting í rannsóknum skilar sér í aukinni þekkingu á slysagildrum og fækkun slysa. Ég kem betur að þessu markmiði síðar.

Í fjórða lagi verði vegmerkingar bættar. Hér er sérstaklega verið að tala um leiðbeinandi hraðamerkingar á erfiðum vegarköflum, t.d. kröppum beygjum. Vegagerðin metur þá ákveðna vegarkafla, finnur út æskilegan hámarkshraða á því vegbili og setur upp sérstakar merkingar.

Í fimmta lagi vil ég nefna að Umferðarstofa mun gefa út sérstakt myndband fyrir erlenda ferðamenn um þær aðstæður sem hér eru og undirbúa þannig erlenda gesti betur en nú er gert áður en þeir leggja í að ferðast um vegi landsins. Erlendir ferðamenn lenda í allt of mörgum slysum á þjóðvegum landsins. Við því þarf að bregðast.

Í sjötta lagi mun ég eins og áður sagði leggja fram endurskoðaða umferðaröryggisáætlun sem verður á ábyrgð Umferðarstofu að fylgja eftir. Ný áætlun verður lögð fram með tímasettum aðgerðum til fjögurra ára, skýrum markmiðum, kostnaður áætlaður og ábyrgð verkefna verður skýr.

Í sjöunda lagi verður hraðaeftirlit eflt í samstarfi við lögregluna. Rannsóknir sýna að öflugt og markvisst hraðaeftirlit er árangursríkasta leiðin til að vinna gegn hraðakstri sem er meginorsök alvarlegustu umferðarslysanna.

Í áttunda lagi vil ég nefna þær miklu framkvæmdir sem eru á vegakerfinu um allt land um þessar mundir. Þær eru allar til þess fallnar að auka umferðaröryggi.

Nokkrar stórframkvæmdir Vegagerðarinnar vil ég nefna sérstaklega. Þær munu hafa mikil áhrif til bætts umferðaröryggis. Ég vil nefna fyrsta áfanga við tvöföldun Reykjanesbrautar sem nýlega var lokið við. Unnið er að breikkun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ, lagður verður nýr vegur um Stafholtstungur í Borgarfirði. Vegur um Norðurárdal í Skagafirði verður endurbættur. Nýr vegur um Svínahraun verður settur af stað og framkvæmdir við jarðgöng í Almannaskarði eru hafnar. Allt eru þetta tímamótaframkvæmdir og fleiri mætti nefna sem stórauka umferðaröryggi á viðkomandi vegarköflum.

Í níunda lagi viljum við breyta viðhorfi almennings og á það hef ég lagt ríka áherslu, að breyta viðhorfi almennings til hraðaksturs. Það er staðreynd að of mörgum finnst sjálfsagt að aka á ólöglegum hraða. Á sama tíma er hraðakstur algengasta orsök alvarlegra slysa.

Í tíunda lagi eru sérfræðingar ráðuneytisins og Umferðarstofu að leggja mat á fýsileika þess að svokölluðum ökugerðum eða æfingaaksturssvæðum verði komið upp. Á fundi samgönguráðherra Norðurlandanna nýverið voru kynntar tillögur Svía um nýjar aðgerðir til að koma í veg fyrir umferðarslys með því að draga úr hraðakstri og ölvunarakstri. Ástæða er til að læra af reynslu nágranna okkar í Evrópu og munum við fylgjast grannt með framvindunni hjá þeim.

Ég vík þá að frumvarpi því sem hér er til umræðu. Hér á landi er ekki að finna heildstæða löggjöf um rannsóknir umferðarslysa í formi almennra laga. Í 115. gr. a umferðarlaga, nr. 50/1987, ásamt síðari breytingum, er þó ákvæði um að ráðherra geti skipað sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa. Er gert ráð fyrir því að nefndarmenn skuli hafa sérfræðiþekkingu, svo sem að því er varðar umferðarlöggjöf, löggæslu, slysalækningar, umferðarskipulag, bifreiðatækni eða vátryggingar.

Í reglugerð nr. 681/1998 er fjallað um hlutverk og skipulag rannsóknarnefndar umferðarslysa. Þar er m.a. ákvæði þess efnis að nefndin skuli starfa sjálfstætt og óháð öðrum stjórnvöldum og rannsóknaraðilum. Nefndarmenn skulu vera þrír og skipaðir af samgönguráðherra.

Því frumvarpi sem hér er lagt fram er ætlað að skjóta frekari stoðum undir lagagrundvöll starfsemi rannsóknarnefndar umferðarslysa og skapa henni þannig réttarstöðu til samræmis við aðrar rannsóknarnefndir á sviði slysa og ófara, svo sem flugslysa og sjóslysa. Ljóst er þó að ekki er hér um sambærilegar rannsóknir að ræða að öllu leyti, og er í frumvarpi þessu að nokkru vikið frá því fyrirkomulagi sem t.d. er mælt fyrir um í lögum nr. 35/2004, um rannsókn flugslysa, auk þess sem skilgreining verkefna nefndanna er með nokkuð ólíkum hætti. Markmiðið er hins vegar hið sama, að koma í veg fyrir slys með því að auka skilning á orsökum þeirra með umfangsmiklum og nákvæmum rannsóknum.

Meginatriði frumvarpsins lúta einkum að eftirfarandi atriðum: Hlutverki og markmiðum rannsóknarnefndarinnar, skipulagi nefndarinnar, framkvæmd rannsókna af hálfu nefndarinnar, samningu skýrslna í tengslum við störf nefndarinnar og að aðgangi að gögnum hjá nefndinni.

Samkvæmt frumvarpinu skulu rannsóknir nefndarinnar miða að því einu að leiða í ljós orsakir umferðarslysa til að koma í veg fyrir að sams konar umferðarslys verði aftur og stuðla að því að umferðaröryggi megi aukast. Rannsóknir umferðarslysa skulu bæði ná til rannsókna einstakra umferðarslysa svo og til flokka umferðarslysa eða umferðarslysa sem teljast af sama tagi. Með flokki umferðarslysa er átt við afmarkaðar tegundir umferðarslysa sem hafa tiltekin einkenni, svo sem banaslys. Með slysum af sama tagi er hins vegar t.d. átt við öll slys sem verða á einhverjum tilteknum gatnamótum eða tiltekinni tegund gatnamóta á ákveðnu tímabili. Áhersla skal lögð á að ekki er ætlunin með frumvarpi þessu að hagga því fyrirkomulagi sem nú er á rannsókn lögreglu á umferðarslysum.

Skipulag nefndarinnar mun verða með nokkuð áþekkum hætti og hjá rannsóknarnefnd flugslysa. Í nefndinni skulu því eiga sæti þrír menn sem samgönguráðherra skipar til fimm ára í senn og skal einn þeirra skipaður formaður. Jafnframt skal samgönguráðherra skipa varamenn til sama tíma.

Samgönguráðherra skipar nefndinni sérstakan forstöðumann. Forstöðumaðurinn verði skipaður til fimm ára í senn. Forstöðumaður nefndarinnar sé jafnframt rannsóknarstjóri hennar og stýri rannsóknarverkefnum á vegum nefndarinnar. Jafnframt er gert ráð fyrir því að rannsóknarnefndin geti tilnefnt staðgengil forstöðumanns, svo sem vegna forfalla, leyfa eða sambærilegra atvika.

Lagt er til að nefndin gefi út og birti skýrslu um störf sín ár hvert. Í skýrslunni skal m.a. vera að finna yfirlit yfir helstu störf nefndarinnar á yfirstandandi starfsári, tölfræðilegar samantektir auk almennra tillagna um öryggisúrbætur á sviði umferðarmála.

Nefndin getur líka, telji hún tilefni til, samið sérstaka skýrslu um niðurstöðu einstaks slyss. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir orsök eða sennilegri orsök slyssins auk þess sem þar skulu gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera má til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum eða draga úr afleiðingum þeirra. Skýrslur nefndarinnar skulu gerðar opinberar.

Jafnframt er gert ráð fyrir að nefndin geti beint tilmælum til viðeigandi aðila um úrbætur í umferðaröryggismálum eftir því sem rannsókn gefur tilefni til og skulu þeir sem tillögum er beint til taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda þeim í framkvæmd ef við á. Þetta er mikilvægt nýmæli.

Hæstv. forseti. Ég hef í stuttu máli rakið meginatriði frumvarps til laga um rannsóknarnefnd umferðarslysa. Ég legg til að málinu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og samgöngunefndar.