131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa.

236. mál
[15:03]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir ágætar undirtektir við það frumvarp sem hér er til umfjöllunar en vildi fara nokkrum orðum um þær ábendingar og athugasemdir sem komið hafa fram.

Í fyrstu vil ég nefna ábendingar hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar þar sem hann vakti athygli á því sem fram kemur í nýlegri skýrslu rannsóknarnefndar umferðarslysa um áföll ungra ökumanna í umferðinni og hátt hlutfall þeirra í slysasögunni. Af þessu tilefni er kannski rétt að geta þess að þetta hlutfall hefur farið lækkandi, þ.e. ungu ökumennirnir standa sig betur í umferðinni og það er afskaplega mikilvægt. Því ber að fagna og vonandi tekst okkur að ýta undir þá jákvæðu þróun, m.a. með þeim aðgerðum sem ég tíundaði í framsöguræðu minni. Það er skaðlegt, held ég, að hv. þm. Kristján L. Möller skuli ekki hafa verið í salnum til að hlusta á framsöguræðuna enda bar ræða hans þess kannski vott að nokkru leyti. Að sjálfsögðu gefst þingmönnum færi á að lesa það í þingtíðindum.

Sama er að segja um ábendingu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar um mikilvægi hjólbarða og áhrif lélegra hjólbarða í sambandi við slys. Það kemur fram í rannsóknargögnum rannsóknarnefndarinnar og verður eitt af því sem þarf að taka sérstaklega til skoðunar. Þetta eru allt saman atriði sem ég tel mikilvægt að huga að og rannsóknarnefndin mun væntanlega gera það, hefur og gert sem og fleiri.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir fór efnislega yfir frumvarpið og ég vil þakka fyrir það. Hún velti fyrir sér hvort nefndinni væru veittar of víðtækar heimildir, nefndarmönnum og rannsóknarstjóranum. Nú er það þannig að við höfum sniðið frumvarpið vegna rannsóknarnefndar umferðarslysa að langmestu leyti og hugmyndafræðilega séð algjörlega eftir lögunum um rannsóknarnefnd sjóslysa og flugslysa af fenginni reynslu. Grundvallaratriðið í þessu öllu saman er m.a. það að rannsóknarnefndin sé óháð, sjálfstæð, og geti gengið til verks við að rannsaka án utanaðkomandi afskipta eða áhrifa. Til þess þarf hún að fá býsna víðtækar heimildir. Engu að síður þarf hún að sjálfsögðu að eiga afskaplega gott samstarf við lögregluna. Það er mjög mikilvægt enda eru verulega margar ályktanir sem rannsóknarnefnd þarf að draga m.a. byggðar á rannsóknum lögreglu. Engu að síður teljum við, og það kemur skýrt fram í frumvarpinu, að nefndin verði að hafa víðtækar heimildir til þess að geta staðið að rannsóknunum. Það ber að undirstrika alveg sérstaklega að ekki er verið að veita heimildir til að rannsaka slys í umferðinni til þess að geta stofnað til málshöfðunar eða finna sök. Það er algjört grundvallaratriði í þessu, alveg eins og er í lögum um hinar rannsóknarnefndirnar tvær.

Það er jafnframt rétt ábending að það er mjög mikilvægt að vinna rannsóknarnefndarinnar stangist ekki á við vinnu lögreglunnar, þ.e. að ekki verði árekstrar á milli rannsóknarnefndar, eða rannsóknarstjóra í flestum tilvikum, og lögreglu. Það skiptir miklu máli. Ég held að ekki sé ástæða til að ramma það sérstaklega inn í löggjöfina. Við höfum verið að þróa starfið á grundvelli þeirrar heimildar í umferðarlögunum sem við höfum haft og beitt til þess að rannsóknarnefndin gæti starfað. Það er komin töluvert mikil reynsla af þessu og ég hef ekki heyrt annað en að reynsla af samstarfi starfsmanns nefndarinnar og lögreglu hafi verið býsna góð. Engu að síður tel ég nauðsynlegt að huga að þessu öllu saman en þarna hafa ekki að því er virðist skapast vandræði svo að talin væri ástæða til að fjalla sérstaklega um það í frumvarpinu.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir velti fyrir sér hvort eðlilegra hefði verið að nefndin væri inni á vettvangi Umferðarstofu eins og hún er í raun og veru núna. Hún er þar til húsa en hefur samt starfað sjálfstætt. Við skoðuðum þetta að sjálfsögðu mjög vandlega og ýmsir höfðu þá afstöðu að ekki væri ástæða til að setja þennan lagaramma utan um umferðarslysarannsóknirnar. Ég er algjörlega ósammála því. Slysin í umferðinni eru risavaxin þegar mælt er á mælikvarða sjóslysa og flugslysa og ég tel að það séu og eigi að vera þau skýru skilaboð með þeirri löggjöf sem hér er lagt til að verði sett að við ætlum okkur að beita öllu okkar afli til þess að reyna að koma í veg fyrir slys, m.a. með rannsóknum. Þess vegna legg ég þetta frumvarp hér fram, til þess að fá skýrar lagaheimildir til að sinna rannsóknum vegna umferðarslysa og leita allra leiða til að læra af þeim slysum sem verða. Sá er fyrst og fremst tilgangurinn, að geta komið með rökstuddar ábendingar til allra sem að þessum málum starfa.

Þá kem ég einmitt að því atriði sem veldur því að ég taldi ekki eðlilegt að þetta væri undir Umferðarstofu, þ.e. sem þáttur í starfsemi hennar. Svo getur farið að rannsóknarnefndin komist að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa rannsakað og unnið að sínum málum, að það þurfi bæði að gera tillögur til úrbóta og athugasemdir við ökutæki, við eftirlit með ökutækjum, skráningu ökutækja og jafnframt útfærslu vegakerfisins o.s.frv. þannig að ábendingarnar geta beinst að Umferðarstofu ekki síður en Vegagerðinni og ökumönnum. Þess vegna tel ég svo mikilvægt að nefndin sé sjálfstæð, sé ekki undir neinum af þessum stofnunum ríkisins þannig að hún lúti einhverju agavaldi sem gæti hugsanlega leitt til þess að rannsókninni yrði beint frá því sem betur mætti fara hjá ríkisstofnunum sem eiga að hafa eftirlit með öryggisþáttunum á vegunum, hjá ökumönnum og ökutækjunum. Þetta er ástæðan fyrir því að það var ekki valið að hafa rannsóknarnefndina undir Umferðarstofunni.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir benti á 15. gr. og ákvæði hennar þar sem m.a. var fjallað um endurupptöku mála. Nú muna þeir sem eru nokkuð gamlir í hettunni eftir mikilli umræðu um rannsóknir flugslysa á síðasta kjörtímabili. Þar var m.a. rætt mjög um það að heimildir skorti til endurupptöku mála. Þess vegna var gerð sú breyting á lögum um rannsóknarnefnd flugslysa að ef um nýjar upplýsingar er að ræða getur nefndin tekið mál upp að nýju og rannsakað og ef sérstaklega stendur á getur ráðherrann beint því til nefndarinnar að endurupptaka mál í þeim tilgangi að tryggja að öllu sé til skila haldið og niðurstaðan sé hin rétta vegna þess að ný atriði hafi komið upp o.s.frv.

Ég tel að þetta sé nauðsynlegur kostur, annars vegar að nefndin geti tekið upp rannsókn þó að henni hafi verið lokið og hins vegar að í algjörum undantekningartilfellum geti ráðherra beint rannsókn til nefndarinnar. Þarna er um heilmikið víðtækar heimildir að ræða en það beinist allt í þann sama farveg að tryggja sem best aðkomu nefndarinnar, rannsóknina og að allar upplýsingar séu klárar og liggi á borðinu, jafnvel sé heimilt að taka málið upp að nýju ef nýjar upplýsingar berast. Þetta er það helsta sem hér kom fram.

Hvað varðar mat á kostnaði við nefndina — það kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller að hann efaðist um að þetta dygði. Í því frumvarpi til fjárlaga sem liggur fyrir þinginu er verið að tvöfalda þá upphæð sem til þessara rannsókna er ætluð og ég taldi alveg nauðsynlegt að gera það um leið og ég legði frumvarpið fram því að það var þá þegar undirbúið, þegar fjárlagafrumvarpið var unnið, að þetta frumvarp kæmi fram. Við höfum verið að skera mjög við nögl vegna þessara rannsókna. Núna erum við samt að gera ráð fyrir því að u.þ.b. tvöfalda upphæðina sem er á fjárlögum á næsta ári og við verðum, held ég, síðan að sjá hvað setur með það og meta stöðuna. Út af fyrir sig er ekki gert ráð fyrir því að nefndin öll ferðist um landið eins og hv. þm. Kristján L. Möller virtist gera ráð fyrir. Yfirleitt fer starfsmaður nefndarinnar og frumrannsakar og síðan fer nefndin öll ofan í þá rannsókn og þá vinnu sem rannsóknarstjórinn framkvæmir, eða starfsmaður nefndarinnar núna. Auðvitað er reynt að standa skynsamlega að þessu og halda kostnaði í lágmarki.

Hv. þm. Kristján L. Möller nefndi að það þyrfti að skýra betur samkvæmt 1. gr. hvað átt væri við með flokkun slysa, það þyrfti að liggja fyrir reglugerðartillaga. Það er sjálfsagt að nefndin fari yfir það og ráðuneytið mun koma með sínar upplýsingar inn í nefndina til þess að hægt sé að vanda þá vinnu alla en ég tel að þetta sé bara af hinu góða. Allar þessar ábendingar eru réttmætar og ástæða til að taka tillit til þeirra.

Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir minntist á lausagöngu búfjár og að verið væri að reyna að herða á reglum þar að lútandi. Þarna er víða pottur brotinn og ég tek undir með hv. þm. um að huga þurfi að fleiri vegarköflum en einungis þjóðvegi 1 hvað þetta varðar, þetta er eitt af því sem þarf að skoða. Þetta varðar kannski frekar umfjöllun um samgönguáætlunina en það þarf að leggja aukna áherslu á bann við lausagöngu búfjár og girðingar með vegum sem ég tel einu raunhæfu leiðina til að koma í veg fyrir þá hættu sem stafar af búfé á þjóðvegum landsins. Ég held því að hv. samgöngunefnd ætti að skoða það alveg sérstaklega þegar þar að kemur.

Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir nefndi framkvæmdir á vegum borgarinnar sem hafi dregið úr slysum, það er allt saman hárrétt. En ég vil benda á að langstærstu aðgerðirnar hvað þetta varðar eru á vegum ríkisins, á vegum Vegagerðarinnar, t.d. mislægu gatnamótin á Breiðholtsbrautinni í Mjóddinni, Stekkjarbakkagatnamótin og Víkurlandsvegargatnamótin. Þar að auki má nefna margs konar aðgerðir, eins og úrbótaaðgerðir á þeim parti vegakerfisins á höfuðborgarsvæðinu sem fellur undir þjóðvegakerfið. Það er ágætt samstarf milli borgaryfirvalda og Vegagerðarinnar í því skyni að bæta gatnakerfið og það hefur náðst heilmikill árangur. Slysin verða úti á þjóðvegum landsins og við eigum að beina sjónum okkar að því.

Liður í þessu öllu saman er að efla rannsóknir. Þetta frumvarp er flutt hér í þeim tilgangi að við getum lært af því sem er ekki í lagi og bætt þar úr.

En að öðru leyti þakka ég fyrir ágætar undirtektir hjá þingmönnum við frumvarpinu sem hér er til meðferðar.