131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Sérkennslu- og meðferðardagdeild fyrir börn með geðrænan vanda.

24. mál
[15:55]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það kemur í ljós að þrátt fyrir að umsögn sem ég hef hérna fyrir framan mig sé stíluð á félagsmálanefnd Alþingis þá mun heilbrigðis- og trygginganefnd hafa sent hana út þannig að ég legg til, virðulegi forseti, að tillagan verði aftur þá send til heilbrigðis- og trygginganefndar.

Mig langar að þakka mínum ágætu flokksfélögum, hv. þingmönnum, sem hér eru í salnum fyrir umræðuna, því þó að tillagan sé flutt af þingmönnum allra flokka þá eru þeir sem hér hafa talað allt saman þingmenn Samfylkingarinnar sem reyndar hafa tekið þetta mál upp á vettvangi flokksins oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og gert að baráttumáli sínu.

Mig langar, virðulegi forseti, við lok þessarar umræðu til þess að fara örstutt yfir tvær umsagnir sem eru sýnishorn af þeim umsögnum sem bárust.

Það er annars vegar umsögn frá sveitarfélaginu Árborg, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Efni: Tillaga til þingsályktunar um stofnun sérkennslu- og meðferðardagdeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda.

Nú er til um umræðu á Alþingi tillaga til þingsályktunar um stofnun sérkennslu- og meðferðardagdeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda. Tillagan er flutt af þingmönnum Suðurkjördæmis.

Lengi hefur verið ljóst að erfitt er að sinna lögboðinni kennslu þessara nemenda í almennum bekkjardeildum í grunnskólum og ekki hægt að veita þá sérhæfðu meðferð sem þeir þurfa á að halda vegna veikinda sinna. Með þeim úrræðum, sem gert er ráð fyrir í tillögunni, yrði stigið stórt skref til hagsbóta fyrir þessi börn og aðstandendur þeirra.

Bæjarstjórn sveitarfélagsins Árborgar fagnar framkominni þingsályktunartillögu og hvetur Alþingi til að samþykkja hana.“

Hitt er umsögn frá Félagi íslenskra sérkennara. Þar segir, með leyfi forseta:

„Umsögn um: Tillögu til þingsályktunar um stofnun sérkennslu og meðferðardeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda.

Legg til að breyting verði gerð á texta ályktunarinnar, hann verði þannig:

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra að ganga frá samningum um stofnun einnar eða fleiri sérkennslu- og meðferðardeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda og leggja fyrir Alþingi nauðsynlegar lagabreytingar ...“

Í tillögu okkar flutningsmanna er talað um eina deild sem verði tilraunaverkefni. En þarna er Félag íslenskra sérkennara að leggja áherslu á að slíkar deildir þurfi að vera um allt land og við erum sammála því.

En síðan segir í greinargerð þessarar umsagnar, með leyfi forseta:

„Í áratug hefur opinber stefna íslenskra stjórnvalda verið sú að öllum nemendum á grunnskólastigi skuli þjónað í heimaskóla ...

Ljóst er að þetta er ekki alltaf framkvæmanlegt gagnvart öllum nemendum. Veikindi (líkamleg eða geðræn), misþroski eða aðlögunarerfiðleikar geta gert þetta óframkvæmalegt um lengri eða skemmri tíma. Börn eða unglingar geta af ýmsum orsökum verið ófær um sinna skólagöngu sér að gagni í stórum hópi eða jafnvel í litlum hópi inni í stórum skóla vegna geðrænna veikinda eða félagslegra aðlögunarerfiðleika.

Nauðsynlegt er að hafa þá stefnu að allir nemendur séu í sama skóla og læri félagslega færni samhliða bóklegu námi þegar þeir eru hæfir til að meðtaka lærdóminn. Jafnframt er nauðsynlegt að hafa einhver úrræði til að þoka áfram námi þeirra og auka þroska og félagslega færni undir stjórn sérfræðinga ef almenn skólaúrræði nýtast ekki af fyrrgreindum orsökum.

Slíkum deildum þarf að vera unnt að koma upp á nokkrum stöðum á landinu þar sem sérhæft starfsfólk er til staðar.“

Síðan segir í lok umsagnarinnar sem er undirrituð af Ólafi Ólafssyni, formanni Félags íslenskra sérkennara, með leyfi forseta:

„Undirritaður hefur rannsakað skólagöngu fanga og það er ótvíræð niðurstaða þeirrar rannsóknar að mjög stór hluti fanga fékk ekki viðunandi kennslu í grunnskóla og/eða meðferð við geðrænum erfiðleikum sínum. Stór hluti þeirra hefur enga menntun til að byggja á í lífinu og er vanhæfur til að takast á við líf í nútímasamfélagi, en skólastarfi er ætlað að undirbúa þegnana undir það.“

Undir þetta ritar, eins og áður segir, Ólafur Ólafsson, formaður Félags íslenskra sérkennara.

Þriðju umsögnina ætla ég að nefna hér vegna fjarveru hæstvirts ráðherra. Þessi umræða var á dagskrá í dag og hefur áður verið á dagskrá þingsins. Hún var hér til umræðu á síðasta þingi og þá voru hæstv. ráðherrar, hvorki menntamála né heilbrigðisráðherra, við.

Í umsögn heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis, og ég býst við að það hafi verið svipað frá menntamálaráðuneytinu, segir, með leyfi forseta:

„Í bréfi heilbrigðis- og trygginganefndar er leitað umsagnar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis um áðurgreinda tillögu til þingsályktunar.

Ráðuneytið telur ekki tilefni til að gefa umsögn að svo stöddu þar sem heilbrigðis- og tryggingaráðherra mun tjá sig um þingsályktunina í umræðu á Alþingi ef þurfa þykir.“

Það er sem sagt alveg ljóst að hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ekki talið að hann þyrfti að tjá sig um tillöguna í dag.

Virðulegi forseti. Við höfum rætt stöðuna sem er uppi í dag og það verkfall sem bitnar auðvitað hart á öllum grunnskólanemum landsins, en e.t.v. harðast á þeim sem búa við þá erfiðleika sem við nefnum í þingsályktunartillögunni, geðræn vandamál af ýmsum toga. Það lýsir því í hvers lags limbói málefni þeirra barna eru, að þau eru á gráu svæði, að þegar verið er að fjalla um undanþágur til kennslu vegna barna með geðrannsóknir sem verða að hafa ákveðið munstur yfir daginn og búa við ákveðið öryggi frá degi til dags, að ekki er talað um það sem heilbrigðismál. Það er ekki talað um það. Það má vera að matið fari fram í undanþágunefnd eða í umræðum innan skóla eða meðal sveitarstjórnarmanna í þá veru, en það er alla vega ekki talað um það sem heilbrigðisvandamál sem það er ekkert síður en að þau séu án kennslu. Þetta tefur þroska þeirra og getur eyðilagt fyrir þeim ekki bara þann tíma sem verkfallið stendur heldur um langa framtíð. Því miður.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar fyrir umræðuna. Vonandi nær tillaga okkar fram að ganga svo að þau börn sem hér um ræðir geti horft til bjartari framtíðar.