131. löggjafarþing — 23. fundur,  10. nóv. 2004.

Lokun veiðisvæða á grunnslóð.

[13:34]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að svara fyrirspurnum hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Það er hins vegar einkennilegt að hafa þann hátt á í þessu máli þar sem farið er eftir hefðbundnu vinnulagi varðandi lokanir vegna smáfisks að vera með upphrópanir um geðþótta og að litlar rannsóknir liggi að baki þar sem við höfum áratuga reynslu af því að vinna á þennan hátt.

Því er hins vegar til að svara að sex skyndilokanir hafa átt sér stað á þessu svæði í haust og í framhaldi af því lagði Hafrannsóknastofnun til að fjórum af grynnstu svæðunum yrði lokað með reglugerðarbreytingu. Hlutfall af smáfiski, þ.e. undir 55 sentímetrum, hefur verið frá 36% og upp í 73% á þessum svæðum. Inni á þeim hafa hins vegar verið aðrar tegundir líka, t.d. mjög góð ýsa en hins vegar í svo litlu magni að þótt vegið sé saman í útreikningunum vegur það ekki upp á móti þessu háa hlutfalli.

Hins vegar hafa sjómenn bent á að þarna gæti verið um að ræða eldri fisk en 3–4 ára eins og algengast er í kringum 55 sentímetrana. Svona hugmyndir hafa komið upp áður, bæði fyrir norðan og vestan, og sýni sem tekin hafa verið í haust á þessu svæði benda til þess að gagnstætt því sem var í þeim tilfellum sem ég nefndi fyrir norðan og vestan gæti þetta átt við rök að styðjast. Þess vegna hafa verið gerðar ráðstafanir til að kanna frekar hvort þarna gæti verið um eldri fisk að ræða. Verði niðurstöður þess eðlis að um eldri fisk sé að ræða verður reglugerðarlokunin endurskoðuð, frú forseti.