131. löggjafarþing — 23. fundur,  10. nóv. 2004.

Lokun veiðisvæða á grunnslóð.

[13:36]

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er vissulega um mikið alvörumál að ræða þar sem 70–80% af vinnusvæði þessara báta hefur verið lokað og smábátunum sem stunda þessar veiðar er beint á djúpmið. Þeim er beint á djúpmið á þeim árstíma þegar veður eru válynd og varasamt að stunda smábátaveiðar á þeim svæðum.

Ég fagna yfirlýsingu hæstv. sjávarútvegsráðherra um að þarna sé um að ræða staðreyndir með stærð fisksins sem gæti átt við rök að styðjast. Ég trúi því og treysti að það verði skoðað hið allra fyrsta því að mjög brýnt er að fljótt verði brugðist við.

Ég vil vekja athygli á öðru. Það er dálítið sérkennilegt og hefur komið fram oftar en einu sinni við lokanir að gerðar eru mælingar á tveimur stöðum. Það er langt á milli mælinga og síðan er svæðinu öllu á milli þeirra lokað. Stundum hafa þar verið á milli sjómenn sem hafa sótt á allt aðrar veiðar og svæðinu er lokað fyrir þeim. Þetta þekki ég af Vestfjörðum. Í stað þess að loka svæðum, af hverju er ekki lokað fyrir veiðar á ákveðnum fisktegundum? Það vita allir sem stunda línuveiðar að það er hægt að stýra veiðunum með beituvali. Það er ekki sama beita, það er ekki sama agn sem er notað til að veiða ýsu og þorsk. Með lokun vegna þorskmælinga á afmörkuðum svæðum hefur komið fyrir að stórum svæðum hefur verið lokað fyrir þá sem eru að sækja allt aðrar tegundir á þessu sama svæði.

Þetta þarf að athuga því að með því að skipta um beitutegundir er það nánast eins og að skipta um veiðarfæri. Það er hægt að stýra þessum smábátum í þær tegundir sem þeir ætla sér að veiða. Dæmi um það af þessu svæði sem nú var lokað er einmitt sjómaður sem hafði landað af ýsumiðum, sem hér kom fram að væru að vísu takmarkaðar, ég þekki það ekki nægilega vel, en hann bauð Fiskistofumönnum að skoða afla sinn og mæla hann. Þeir höfðu ekki áhuga á því. Hann verður fyrir barðinu á þessu, rétt eins og hinir sem voru á þorskveiðunum.