131. löggjafarþing — 23. fundur,  10. nóv. 2004.

Lokun veiðisvæða á grunnslóð.

[13:46]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra gerði athugasemd við að ég notaði orðið geðþóttaákvarðanir í þessu sambandi. En ég spyr: Hvernig í ósköpunum á maður að geta komist hjá því að sá grunur læðist að manni þegar maður fær fréttir af þeim gögnum sem liggja fyrir varðandi þessa ákvörðun?

Reyndin er sú að megnið af þessum svokallaða smáþorski sem mennirnir hafa verið svo ólánsamir að veiða á línur sínar er á bilinu 50–55 sentímetrar á lengd. Þetta er þorskur sem er hálfur metri á lengd. Þetta er enginn smáfiskur. En viðmiðunarmörkin í reglugerðunum eru svo vitlaus og svo ferköntuð að þar er talað um að 25% af aflanum megi ekki vera undir 55 sentímetrum og eftir þessu fara menn.

Það er hárrétt sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson benti að heilbrigð fiskveiðistjórn snýst ekki um tommustokka og tölfræði. Heilbrigð fiskveiðistjórn á að snúast um líffræði og vistfræði. Ég veit ekki hversu oft þarf að endurtaka þetta til að stjórnvöld skilji. Ég tala hér um líffræði og vistfræði í víðasta skilningi orðanna, bæði líffræði og vistfræði fiskstofnanna í hafinu en líka um mannlífið á landi. Við megum ekki gleyma því.

Hér líta menn bæði fram hjá líffræði og vistfræði og fram hjá mannlífinu í landi. Menn nota gersamlega fáránleg viðmiðunarmörk til að taka ákvarðanir, sem ég kalla geðþóttaákvarðanir fyrst engar rannsóknir liggja á bak við þær.

Hvers vegna hefur þessi fiskur ekki verið aldursgreindur? Hvers vegna er ekki holdafar fisksins athugað? Hvers vegna eru engar hafrannsóknir af viti stundaðar á þessu svæði? Hvers vegna eru eftirlitsmenn frá Fiskistofu og síðan Fiskistofa látin taka svona ákvörðun út frá löngu úreltri reglugerð sem notuð er í sjávarútvegsráðuneytinu? Hvers vegna er þetta ekki rannsakað? Manni er spurn.

Einnig hlýtur að vakna sú spurning: Er stjórnvöldum hreint og beint illa við að stundaðar séu línuveiðar hér við land, vistvænar veiðar? Sá grunur gæti læðst að manni því að við vitum jú að hæstv. sjávarútvegsráðherra var á móti línuívilnun og ríkisstjórnin einnig.