131. löggjafarþing — 23. fundur,  10. nóv. 2004.

Lokun veiðisvæða á grunnslóð.

[13:49]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég held að enginn lái manni það að undrast ýmislegt sem fram kemur í þessari umræðu og hjá háttvirtum þingmönnum sem töluðu á eftir mér.

Það er að sjálfsögðu rétt að hugsa um líffræði og vistfræði í fiskveiðistjórn. En gera háttvirtir þingmenn sér ekki grein fyrir því að bæði tommustokkurinn og stærðfræðin eru mikilvæg tæki fyrir þessar greinar til þess að byggja rannsóknir á? Hæð og lengd er mæld með tommustokki. Ef ekki væri tommustokkurinn þá mundi hv. þm. Sigurjón Þórðarson ekki vita hversu hár hann er. Þetta er mjög mikilvæg og líffræðileg mæling sem þar er um að ræða. (MÞH: Það er ekki eina mælitækið.)

Herra forseti. Síðan er eins og háttvirtir þingmenn hafi ekki hlustað á það sem ég var að segja. Ég sagði áðan að þessi 55 sentímetra viðmiðun væri til að vernda fisk á bilinu þriggja til fjögurra ára, sem er undir þeirri stærð. Þegar liðið er fram á þennan tíma ársins er fjögurra ára fiskurinn venjulega kominn yfir þessa stærð. En það sem sjómenn hafa verið að benda á, sem fellur undir kategóríuna „fiskifræði sjómannsins“, er að sá fiskur sem þarna um ræðir sé hugsanlega eldri vegna þess að hann sé orðinn kynþroska. Í haust hafa verið gerðar mælingar sem benda til þess að þetta gæti verið rétt. Þess vegna hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að fara í frekari í rannsóknir á þessu og mæla þetta enn frekar. Niðurstöður úr þeim rannsóknum gætu legið fyrir strax eftir helgina og þá verður ákvörðun um reglugerðarlokun endurskoðuð ef tilefni er til. (MÞH: Um að 200 manns verði atvinnulaus.)