131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Skattgreiðslur Alcan á Íslandi.

258. mál
[13:58]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þannig er að skattamál Íslenska álfélagsins í Straumsvík eru sérstök að því leyti að um þau er fjallað í sérstökum samningi sem gerður var upprunalega 1966 á grundvelli laga sem þá voru samþykkt á Alþingi. Samningurinn gerir ráð fyrir því að í stað þess að greiða gjöld samkvæmt hinum almennu íslensku skattalögum greiði fyrirtæki þetta sérstakt framleiðslugjald sem síðan hefur tekið nokkrum breytingum í áranna rás.

Ég er almennt þeirrar skoðunar — og það er rétt eftir haft hjá hv. þingmanni — að heppilegra sé að fyrirtæki af þessu tagi lagi sig að hinum almennu reglum á Íslandi hvað varðar skatta enda hafa þær reglur á undanförnum árum mjög breyst í átt að því sem almennt gerist í fyrirtækjarekstri í öðrum löndum.

Í samningnum sem gildir við Íslenska álfélagið er ákvæði þess efnis að fyrirtækið geti, ef það kýs svo, breytt því fyrirkomulagi sem nú er í gildi og fært sig yfir í hið almenna skattkerfi. Um það þarf að vísu formlega séð að semja en í rauninni er það ákvörðun fyrirtækisins sjálfs hvort það kýs að gera þetta. Ég vil þá segja það sem svar við hinni beinu spurningu í þessari fyrirspurn um það hver afstaða mín sé að ég er mjög jákvæður gagnvart því að fyrirtækið geri þetta.

Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda liggur fyrir erindi í iðnaðarráðuneytinu og það hefur verið til meðferðar milli iðnaðarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins eins og nauðsynlegt er varðandi slíkt mál. Því verður væntanlega svarað fljótlega.

Vandinn hefur hins vegar verið sá, eins og oft er, að e.t.v. gæti fyrirtækið hugsað sér að fá eitthvað örlítið meira út úr slíkum viðskiptum en sem svarar því sem segir í skattalögunum eins og þau eru núna. Þar stendur hnífurinn í kúnni sýnist mér efnislega án þess að ég vilji vera að reifa hér hvað það er sem fyrirtækið muni fá í svar frá ríkinu. Öll fyrirtæki sem hafa aðstöðu til reyna auðvitað að koma ár sinni vel fyrir borð og þetta fyrirtæki sem er góður samstarfsaðili okkar til mjög margra ára og hefur lagt drjúgt í búið í Hafnarfirði í mörg ár vill auðvitað reyna að styrkja stöðu sína gagnvart framtíðinni í þessum efnum.

Afstaða okkar er sú að fyrirtækið er velkomið inn í hið nýja íslenska skattumhverfi sem við höfum verið að gjörbreyta og bæta á undanförnum árum en það getur ekki vænst þess að því til viðbótar fái það sérstök hlunnindi eða réttindi umfram aðra. Í rauninni stendur valið fyrir þetta fyrirtæki um það hvort það vilji halda sig við það fyrirkomulag sem nú er eða hvort það vilji breyta til og fara yfir í óbreytt íslenskt skattkerfi eins og það er á hverjum tíma. Það held ég að sé ákvörðun sem fyrirtækið verður bara sjálft að gera upp við sig. Ég hef enga sérstaka skoðun á því ef það er réttur fyrirtækisins samkvæmt samningnum eins og ég held að sé.

Síðan er það óháð þessu hvað verður um hækkun Hafnarfjarðar í þessu máli sem eins og ég sagði áðan hefur notið mjög góðs umfram önnur sveitarfélög af þessu fyrirtæki. Það er vel, það er fínt en tekjur Hafnarfjarðar af þessu máli eins og þær eru í dag markast auðvitað af samkomulagi sem upphaflega var gert um skiptingu framleiðslugjaldsins sem fyrirtækið greiðir milli ríkis og bæjarfélags.

Þetta held ég, virðulegi forseti, að sé málið í hnotskurn. Síðan má kannski bæta því við að vafalaust er þessi samningur frá 1966 með breytingum öðruvísi en hann væri ef hann væri gerður nýr á árinu 2004. Það á við um svo margt sem gert er. Hann er hins vegar alveg skýr hvað varðar efni málsins og eftir honum ber að fara þangað til aðilar semja um eitthvað nýtt.