131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Atvinnuleysi.

78. mál
[14:09]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Full ástæða er til að hafa áhyggjur af atvinnuleysinu hér á landi, ekki síst viðvarandi atvinnuleysi sem hefur verið í langan tíma hjá 4–6 þús. manns. Langtímaatvinnuleysi er orðið ískyggilegt að mínu mati og einhverjir hópar virðast vera að festast í því. Þrátt fyrir mikinn vöxt og miklar framkvæmdir virðist atvinnuleysið halda áfram að aukast, t.d. á næsta ári, og atvinnuleysið nú í byrjun vetrar hefur aukist frá því á sama tíma í fyrra. Atvinnuleysi hefur vaxið mikið, t.d. hjá ungu fólki sem er mikið áhyggjuefni og fram hefur komið að helmingur allra atvinnulausra er undir 35 ára aldri. Þriðjungur er langtímaatvinnulaus og það fólk hefur verið atvinnulaust í sex mánuði eða lengur.

Hæstv. ráðherra hefur ekki enn svarað fyrirspurn minni frá því í byrjun október um langtímaatvinnulausa. Kalla ég eftir því að fá svar við þeirri fyrirspurn og hvernig hann hyggist bregðast við því að hlutfall langtímaatvinnulausra hefur hækkað úr 19% af öllum atvinnulausum árið 2002 í 26,4% árið 2003. Svo er nú komið að í ágúst 2004 hafði hlutfall langtímaatvinnulausra aukist úr 19% frá árinu 2002 og í 34%, hvorki meira né minna, í ágúst sl.

Lítillega hefur dregið úr atvinnuleysi milli ágúst- og septembermánaðar sem eru sennilega nýjustu tölur, þ.e. þá frá sl. septembermánuði. Þá var því spáð að nú í nýliðnum október mundi atvinnuleysi aukast enn og verða allt að 2,9%. Það er vissulega áhyggjuefni að ekkert virðist ætla að draga úr atvinnuleysinu og spáir fjármálaráðuneytið 2,7% atvinnuleysi á næsta ári og ASÍ reyndar mun meira, þ.e. 3%.

Atvinnuleysi meðal kvenna, einkum á höfuðborgarsvæðinu, er mjög mikið. Það var 3,7% í september en hafði heldur minnkað frá ágúst þegar það var 4,4%. Þó að atvinnuleysi hafi heldur minnkað milli ágúst- og septembermánaðar hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem það er mest á landinu eru nú að meðaltali um 73%, hvorki meira né minna, virðulegi forseti, á landinu öllu á þessu svæði, á höfuðborgarsvæðinu. Á höfuðborgarsvæðinu var í september atvinnuleysi að meðaltali 3,1%, á landsbyggðinni 1,9% og á landinu öllu 2,6%. Þessi þróun hefur alveg snúist við frá því sem áður var þegar atvinnuleysi var yfirleitt minna á höfuðborgarsvæðinu.

Er full ástæða til að hæstv. vinnumálaráðherra leiti skýringa á því hvað veldur og hvernig við því eigi að bregðast. Um það snýst þessi fyrirspurn sem ég tel óþarft að lesa. Hún er í tveim töluliðum um að ég kalli eftir meginskýringum þess að 75% allra atvinnulausra er á höfuðborgarsvæðinu, hvernig við eigi að bregðast og hvernig hægt sé að snúa við þessari öfugþróun.