131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Atvinnuleysi.

78. mál
[14:12]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fyrir mig fyrirspurn um atvinnuleysi. Að því er varðar atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu var 3.371 einstaklingur að meðaltali án atvinnu á fyrstu níu mánuðum þessa árs hér á þessu svæði. Á sama tíma voru 1.396 einstaklingar að meðaltali atvinnulausir á landsbyggðinni. Þessar tölur svara til þess að 71% atvinnulausra hafi að meðaltali komið frá höfuðborgarsvæðinu þessa mánuði.

Engu að síður, hæstv. forseti, er það nokkuð sveiflukennt yfir árið hve hátt hlutfall atvinnulausra kemur héðan af höfuðborgarsvæðinu þar sem meiri sveiflur í atvinnuleysi eru á landsbyggðinni samanborið við höfuðborgarsvæðið. Það verður því að varast að skoða einungis einstaka mánuði í þessu samhengi. Sem dæmi má nefna að stór hluti atvinnulausra, eða um 70–75% á síðustu árum, hefur komið af höfuðborgarsvæðinu yfir sumarmánuðina. Þetta hlutfall hefur hins vegar tekið breytingum yfir vetrarmánuðina þegar hlutfall þeirra sem hafa búsetu á höfuðborgarsvæðinu er um 50–65% allra atvinnulausra á landinu. Á þeim tíma er atvinnuleysið hvað mest á landsbyggðinni.

Atvinnuleysi meðal fólks er mælt sem hlutfall af mannafla á vinnumarkaði í hverjum mánuði samkvæmt áætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þegar þessar hlutfallstölur eru skoðaðar, skipt eftir kyni, lítur vissulega út fyrir að atvinnuleysi meðal kvenna sé tæplega helmingi meira en atvinnuleysi meðal karla á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Athyglisvert er þó, hæstv. forseti, að skoða þetta betur og velta því upp hvað stendur á bak við þessar hlutfallstölur. Staðreyndin er sú að konur á vinnumarkaði eru færri en karlar en eins og áður sagði er atvinnuleysi reiknað á áætluðum fjölda þátttakenda á vinnumarkaði. Þar af leiðandi er munurinn á meðalfjölda atvinnulausra minni milli kvenna og karla en hlutfallstölurnar virðast gefa til kynna við fyrstu sýn.

Þegar skoðaður er meðalfjöldi á atvinnuleysisskrá að jafnaði fyrstu níu mánuði þessa árs kemur í ljós að 2.274 karlar og 2.493 konur voru á skrá að jafnaði á mánuði. Þegar einungis er litið til fjölda atvinnulausra á þessu tímabili að meðaltali voru 9% fleiri konur á skránni að jafnaði en karlar.

Í ljósi framangreinds má eflaust velta fyrir sér við hvað eigi að miða þegar meta skal hvort ráðast skuli í sértæk vinnumarkaðsúrræði, hreinar fjöldatölur eða hlutfallstölur reiknaðar út frá áætluðum mannafla á vinnumarkaði. Vinnumarkaðsúrræði svæðisvinnumiðlana eru ætíð ætluð þeim sem eru í atvinnuleit á hverjum tíma, óháð kyni, búsetu, aldri eða þjóðerni. Reynt er að meta hverju sinni hvaða hópar þurfi sérstaka athygli svæðisvinnumiðlana. Á þessu ári, hæstv. forseti, er t.d. lögð sérstök áhersla á þá einstaklinga sem hafa verið langtímaatvinnulausir og ungt fólk á atvinnuleysisskrá, bæði konur og karla. Stjórn Vinnumálastofnunar lagði m.a. áherslu á að svæðisvinnumiðlanir stæðu fyrir skemmri námskeiðum eða menntasmiðjum fyrir yngsta aldurshópinn. Í því sambandi var undirstrikuð þörfin á vinnumarkaðsúrræðum fyrir ungar mæður í atvinnuleit. Að því er varðar hóp langtímaatvinnulausra var lögð áhersla á menntunar- og starfstengd úrræði.

Þrátt fyrir framangreint hefur sjónum sérstaklega verið beint að atvinnumálum kvenna í víðara samhengi og má ekki rugla því saman hér. Margar þær aðgerðir sem hafa miðast við að auka fjölbreytni í atvinnulífi eða greiða aðgengi kvenna að fjármagni til atvinnurekstrar hafa leitt til þess að dregið hefur úr atvinnuleysi meðal kvenna á einstökum svæðum. Í því samhengi má nefna styrki sem sérstaklega eru ætlaðir til atvinnumála kvenna, Lánatryggingasjóð kvenna og atvinnu- og jafnréttisráðgjafa sem staðsettir hafa verið á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Suðurlandi.

Hæstv. forseti. Það hefur verið mikill hagvöxtur í landinu að undanförnu en á sama tíma höfum við illu heilli þurft að horfast í augu við að 4–6 þús. manns séu að jafnaði án atvinnu í hverjum mánuði. Sá fjöldi nemur um 3–3,5% af áætluðum mannafla á innlendum vinnumarkaði. Við vitum hins vegar að atvinnuleysið hefur verið sveiflukennt í gegnum tíðina og má núna merkja þá ánægjulegu þróun að dregið hefur úr fjölda atvinnulausra nær stöðugt frá því í febrúar sl. Þó fór ekki að verða vart við fækkun kvenna á atvinnuleysisskrá á höfuðborgarsvæðinu fyrr en í júlí sl. en þeim hefur fækkað síðan þá. Í lok september var 3.891 án atvinnu, 1.765 karlar og 2.126 konur. Við skulum vona að þróunin í átt að minnkandi atvinnuleysi haldi áfram, hæstv. forseti.

Því skal ekki neitað að það hefur hvarflað að þeim sem hér stendur að við séum e.t.v. að horfa fram á breytta tíma í þróun atvinnuleysis hér á landi þó að ég telji nú raunar of snemmt að segja til um það. Engu að síður er þýðingarmikið að við séum vakandi og reiðubúin að mæta nýjum aðstæðum. Í því sambandi skiptir mjög miklu máli að allir vinni saman í nánu samstarfi að því markmiði að ná árangri við að draga úr atvinnuleysi. Þar á ég við stjórnvöld, samtök aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélögin og fyrirtækin í landinu. Við verðum öll að axla ábyrgðina og leggjast á eitt við að finna lausnir sem eru vænlegar til árangurs.