131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Heimilislausir.

153. mál
[14:22]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru ekki mörg ár síðan við byrjuðum að sjá miklar breytingar á þessu samfélagi. Þá á ég við það að í samfélaginu er að verða sýnilegt fólk sem á hvergi höfði sínu að halla, fólk sem er á vergangi, lifir utan þjóðfélagsins, fólk sem er með brotna sjálfsímynd og kallar eftir hjálp samfélagsins.

Í svari félagsmálaráðherra til mín á síðasta þingi um aðstæður heimilislausra kom fram að alls voru 102 fullorðnir taldir heimilislausir í fjórum sveitarfélögum, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri. Þar af voru 74 karlar en 28 konur og í hópnum voru einnig einstæðar mæður með börn á framfæri. Meginþorri þessa fólks er í Reykjavík og er frá 20 ára til sjötugs. Rúmlega þriðjungur þess á við fíkniefnavanda að etja og fjölmargir í hópnum eru geðfatlaðir.

Viðbrögð félagsmálaráðherra sem komu fram á síðasta þingi lýstu góðum vilja ráðherrans en nú er kallað eftir aðgerðum. Það er þyngra en tárum taki í þjóðfélagi sem vill kenna sig við velferð og mannréttindi að það taki ekki hiklaust og af festu á málefnum heimilislausra og finni úrlausn á þeim málum.

Ráðherrann sagðist á síðasta þingi hafa fullan hug á að gera könnun á stöðu þessara mála. Hefur slík könnun verið gerð, virðulegi forseti? Ráðherrann sagði líka að fundin yrði lausn á þörfum geðfatlaðra fyrir húsnæði en samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér eru nú 77, hvorki meira né minna, geðfatlaðir einstaklingar sem bíða eftir húsnæði á vegum Öryrkjabandalagsins. Það eru nýjar upplýsingar.

Það segir sig því sjálft að málið þolir ekki bið. Við höfum ekki efni á því, virðulegi forseti, að bíða lengur eftir aðgerðum stjórnvalda þegar á annað hundrað manns eru heimilislausir og bíða úrlausnar, þar á meðal á annan tug einstaklinga sem eru hættulegir umhverfi sínu samkvæmt fyrra svari ráðherrans, eru á götunni og ógna umhverfi sínu eins og fram kom í svarinu. Þessa ógn ber að taka alvarlega og bregðast við til að fyrirbyggja að þessir einstaklingar skaði sjálfa sig eða aðra. Hér er um að ræða sjúka einstaklinga sem þurfa á hjálp samfélagsins að halda, ýmist vegna fíkniefnaneyslu eða alvarlegra geðrænna vandamála. Um getur líka verið að ræða fólk sem ekki getur séð sjálfu sér farborða af ýmsum ástæðum. Það veit ekki gististað sinn frá einni nótt til annarrar og ég kalla hér eftir áformum ríkisstjórnarinnar og tillögum til úrlausnar fyrir heimilislausa. Það er ekki vonum seinna, virðulegi forseti, að á þessu máli sé tekið.