131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Heimilislausir.

153. mál
[14:25]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli hér í þinginu.

Í framhaldi af umræðum á Alþingi sl. vor hélt ég samráðsfund með fulltrúum Félagsþjónustunnar í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði og á þann fund komu einnig fulltrúar frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og lögreglunni í Reykjavík.

Í ljós kom að sá vandi sem hér er um rætt er margþættur og lausn finnst ekki án þess að félagslega kerfið, heilbrigðiskerfið og löggæslan vinni saman. Meðal annars kom í ljós á þessum fundi okkar að skilgreining á hugtakinu „heimilisleysi“ var nokkuð á reiki. Aðilar ákváðu því að mínu frumkvæði að stofna samráðshóp um þessi mál. Hópurinn var skipaður í ágúst og hefur fengið það verkefni að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hugtakið heimilisleysi og í framhaldi að setja fram áætlun um samstillt viðbrögð til að koma í veg fyrir heimilisleysi á höfuðborgarsvæðinu en ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að það hlýtur að vera verkefni sem við tökum höndum saman um. Í hópnum eiga sæti fulltrúar framangreindra aðila.

Hæstv. forseti. Starfshópurinn hefur komist að sameiginlegri vinnuskilgreiningu um hugtakið heimilisleysi enda er það forsenda þess að vinnan beri árangur og að niðurstaðan verði raunhæf. Aflað hefur verið gagna frá umræddum sveitarfélögum og frá lögreglunni í Reykjavík, það var farið yfir upplýsingarnar og þær bornar saman til að tryggja heildaryfirsýn yfir viðfangsefnið. Nú er verið að taka saman í grófum dráttum upplýsingar um viðkomandi einstaklinga sem að mati hópsins búa við heimilisleysi, þ.e. kyn þeirra, aldur og heilsufar, bæði líkamlegt og andlegt, lifibrauð, þ.e. hvort viðkomandi býr við fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, örorkubætur eða annað, samskipti við stofnanir ýmiss konar, gróft mat á meginorsök vanda viðkomandi o.fl. Svo virðist sem nánast allur hópurinn haldi til í Reykjavík, hæstv. forseti.

Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir verður mögulegt að leggja til aðgerðir og tillögur um samráð með það að markmiði að koma í veg fyrir að fólk verði heimilislaust á höfuðborgarsvæðinu. Það er stefnt að því að samráðshópurinn skili mér skýrslu eigi síðar en 15. janúar nk.

Við þetta vil ég bæta, hæstv. forseti, að nú hefur hafist samstarf félagsmálaráðuneytis við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um málefni geðsjúkra sérstaklega og búsetumál þess hóps. Tillögur um aðgerðir til þess að bregðast við því verkefni eiga að liggja fyrir í lok þessa árs eða byrjun hins næsta.

Sömuleiðis hefur verið settur af stað hópur sem ætlað er að bregðast við bráðum vanda þeirra sem geðsjúkir eru og m.a. komu til umfjöllunar hér á hinu háa þingi í vor, þ.e. þeirra sem talið er að hætta geti stafað af. Félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, lögreglan og félagsþjónusta viðkomandi sveitarfélaga hafa tekið höndum saman um að bregðast við vanda þessara einstaklinga á hverjum tíma og það er óhætt að segja, hæstv. forseti, að sú aðferð hefur þegar borið nokkurn árangur.