131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Heimilislausir.

153. mál
[14:28]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér kom fram að 77 geðfatlaðir bíða eftir húsnæði hjá Öryrkjabandalaginu og 20–30 þeirra eru á götunni. Það fólk er að mestu leyti hér í Reykjavík og við sjáum það úti á Austurvelli nánast daglega.

Það er gott sem kemur fram hér hjá hæstv. ráðherra að kerfin eru að vinna saman og hafa komist að niðurstöðu um það að koma sér saman um merkingu hugtaksins heimilisleysi og hvert sé lifibrauð þessa hóps. En hvenær má gera ráð fyrir úrræðum fyrir þessa heimilislausu?

Fyrir nokkrum dögum, þegar snjóaði fyrsta daginn í vetur, gekk ég yfir Austurvöll snemma morguns og sá að undir hvítri snjóbreiðunni lá heimilislaus maður og svaf. Það er orðið mjög brýnt að raunveruleg úrræði komi fyrir þetta fólk þannig að við þurfum ekki í þessu velferðarsamfélagi að horfa upp á það að sjúkt fólk liggi sofandi á bekkjunum úti á Austurvelli þegar maður kemur snemma morguns til vinnu. (Forseti hringir.)

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvenær má búast við úrræðum? Við getum ekki beðið fram yfir áramót eftir því að úrræði fáist.