131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Sameining Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

96. mál
[14:45]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Undirtektir við sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík hafa verið góðar. Það er greinilegt að mikill grundvöllur er fyrir því að efla og sameina og við höfum rætt það í þinginu hvort við séum e.t.v. komin með of marga skóla í landinu. Ég held að það sé mjög jákvætt að við reynum að efla það sem fyrir er og jafnvel að fara þá leið að sameina. Hins vegar er alveg ljóst að við verðum að horfast í augu við hin ýmsu verkefni sem fylgja slíkri sameiningu og fagna ég því sérstaklega yfirlýsingu hæstv. menntamálaráðherra að hlúð verði sérstaklega að frumgreinadeild Tækniháskóla Íslands því að ég hef rætt við nemendur í þeim skóla og þeir hafa miklar áhyggjur af stöðu þeirrar deildar og einnig hafa þeir nokkrar áhyggjur af tæknifræðinni sem slíkri. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að við fáum fljótlega skýr svör í þessu máli vegna þess að margir eru í ákveðinni óvissu í þessu ferli.