131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Sameining Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

96. mál
[14:46]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Er ekki nokkuð hratt af stað farið í að sameina þessa skóla? Eru menn ekki að fara þarna fram úr sér, er ekki hæstv. ráðherra að fara þarna verulega fram úr sér?

Búið er að stofna háskólaráð, það er verið að ganga frá samþykktum fyrir einkahlutafélag sem á að yfirtaka skólana, en það eru ekki enn komin lög frá Alþingi um að þetta skuli gera. Eigum við ekki fyrst að taka umræðuna í þinginu og marka síðan þessum skóla lagalegan ramma áður en farið er að skipa háskólaráð?

Mér finnst þetta alveg forkastanleg vinnubrögð. Hvort sem það er skynsamlegt eða ekki að fara í þessa sameiningu á að taka þá umræðu í þinginu, kveða á um áherslur skólans ef Alþingi samþykkir að sameina þá, kveða á um áherslur um námsbrautir, um meginverkefni, um það hvort hann verður rekinn á skólagjöldum eða ekki. (Forseti hringir.) Ætlar Framsókn t.d. að samþykkja það að allt háskólanám á þessu sviði verði rekið á skólagjöldum? Ekki er það að heyra á skrifum sumra þeirra í blöðum. (Forseti hringir.) Þetta mál verður fyrst að taka fyrir á þingi, hæstv. ráðherra, en ekki úti í bæ.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn að virða tímamörk af því að þau eru svo knöpp.)