131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Vinnustaðanám.

259. mál
[14:53]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Í skýrslu sem hæstv. fyrrv. menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, talaði fyrir á síðasta þingi og fjallar um framkvæmd skólahalds á framhaldsskólastigi á skólaárunum 1999–2002 er sérstakur kafli sem fjallar um námskrárgerð í starfsnámi. Í honum kemur fram að á tímabilinu sem um ræðir hafi verið lögð aukin áhersla á þann þátt starfsnáms sem fer fram á vinnustað. Menntamálaráðherra skipaði sérstakan vinnuhóp á árinu 2001 sem mun hafa verið ætlað að fjalla um fyrirkomulag vinnustaðanáms og fjármögnun þess og hópurinn skilaði tillögum til ráðherra árið 2002. Á grundvelli þeirra ákvað síðan ríkisstjórnin að ráðast skyldi í tilraun um nám og kennslu á vinnustað sem ætlað væri að leiða í ljós hvernig tilhögun þessa hluta starfsnáms yrði best fyrir komið og hvernig tryggja mætti fjármögnun vinnustaðanáms til frambúðar. Samhliða þessu hafa síðan starfsgreinaráðin beint sjónum sínum í ríkari mæli að námi og kennslu á vinnustað og hafa a.m.k. tvö þeirra skilað ítarlegum greinargerðum þar um.

Af þessu tilefni hef ég lagt fram spurningar fyrir hæstv. menntamálaráðherra um það hverjar séu niðurstöður þessarar tilraunar sem ráðist var í 2002 og hvers sé að vænta varðandi tilhögun þessa hluta starfsnáms sem fram fer á vinnustað og hvernig gert sé ráð fyrir að fjármögnun vinnustaðanáms verði tryggð til frambúðar.

Það er afar mikilvægt, virðulegi forseti, að hugleiða þátt starfsnámsins í flóru framhaldsnáms. Starfsnámsbrautir hafa gengið í gegnum mikið umbrotaskeið síðasta áratug eða svo þar sem breytingar hafa verið gerðar á námskrám, námsbrautir verið fluttar til, kjarnaskólar starfsgreina verið stofnaðir og tengsl aukin milli starfsnáms og atvinnulífs. Starfsgreinaráð hafa verið stofnuð og símenntunarmiðstöðvum verið komið á fót sem ætlað er að sinna starfstengdu námi. Umsýsla námssamninga og framkvæmd sveinsprófa hefur verið flutt frá ríkinu og til annarra aðila og svona mætti eflaust áfram telja.

Þessar breytingar hafa ekki allar gengið sem skyldi. Hin nýstofnuðu starfsgreinaráð hafa virkað misvel, tilfærsla kjarnagreinanna hingað á höfuðborgarsvæðið hefur verið gagnrýnd af þeim sem vilja gæta hagsmuna landsbyggðarfólks og nú upp á síðkastið er farið að bera á því að stúdentar frá starfsnámsbrautum eigi erfiðara með að komast að í háskólanámi en aðrir stúdentar, nokkuð sem eflaust helgast af fjöldatakmörkunum í opinbera háskóla sem komnar eru til vegna þess þrönga stakks sem fjárlagafrumvarpið setur háskólum um nemendafjölda en það er aftur önnur saga sem við getum kannski ekki farið nánar út í hér.

En allt þetta gerir starfsnámsbrautum og nemendum í starfsnámi erfitt fyrir og viðheldur í raun því ástandi sem enginn virðist vilja að sé ríkjandi. Við þekkjum það úr stjórnmálunum að allir flokkar hafa uppi fögur áform fyrir kosningar um að efla starfsnámið og tryggja stöðu þess til frambúðar. Þess vegna spyr maður sig: Hvers vegna gengur svona hægt eða í öllu falli ekki nægilega ljúflega og átakalaust með þessi áform? Kannski samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi komi með einhverjar lausnir eða (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra sem hefur tækifæri til að svara spurningum mínum í þessari umræðu.