131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Vinnustaðanám.

259. mál
[15:01]

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í þessari umræðu finnst mér mikilvægt að skoða þá skilgreiningu sem nú er verið að semja um þessa verkþætti vinnustaðanáms sem neminn á að kynnast og sjá þarf til þess að atvinnulífið fari eftir þeirri skilgreiningu sem verður ofan á. Þeir sem stunda nám eins og vinnustaðanám og eru á námssamningi skila sér ekki nægilega vel til sveinsprófs þegar á samningstímann líður og einhvern veginn þarf að tryggja að atvinnurekendur sjái sér ekki hag í því, því iðnnemar eru jú gjarnan á mun lægri launum. Það er hlutverk þess sem hefur nema á samningi að sjá til þess að hann skili sér til sveinsprófs að loknum námstíma. En meistarar bera fyrir sig að námsleiðir séu svo margar og þær séu ekki vel skilgreindar.

Tilgangur vinnustaðanáms er m.a. sá að búa nemendur undir aukna ábyrgð og sjálfstæði í störfum sínum og ætti námskráin að kveða á um að ferilbók fylgi hverjum nemanda í öllu starfsnámi þar sem gerð er grein fyrir verklegri þjálfun hans í vinnustaðanáminu og þar sé lýsing á verkefnum og mat meistara á framgöngu hans, verktækni og starfshæfni. Allt vinnustaðanám ætti að setja þannig upp að það hvetji nemann til að skila sér til sveinsprófs og tryggja sér ákveðin réttindi.