131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Vinnustaðanám.

259. mál
[15:06]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og hv. fyrirspyrjandi þakka fyrir ágæta umræðu og kannski taka upp þennan punkt varðandi starfsgreinaráðin því auðvitað er þetta umhugsunarefni. Þau starfa misvel. Það hefur komið í ljós. Sum starfa mjög vel og eru í mjög miklum tengslum við atvinnulífið, við þarfir nemendanna og við þau markmið sem við höfum sett okkur í menntamálum þegar kemur að starfsgreinunum. En síðan mætti starfið betur fara hjá öðrum. Þetta er sífellt í endurskoðun. Við vitum af þessu og við erum að skoða þetta hverju sinni.

Varðandi vinnustaðanámið sem nú er verið að gera tilraun með þá er ljóst að um nýjung er að ræða. Þetta er ekki alveg sambærilegt við það sem hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á áðan heldur erum við að fara nýjar leiðir. Við erum að reyna að auka vitund og ábyrgð fyrirtækjanna. Við erum að reyna að kveikja neistann hjá fyrirtækjum til þess að koma enn frekar með okkur að þessari tegund vinnustaðanáms. Við erum að reyna að stuðla um leið að markvissari kennslu. Nú svara ég vonandi þeim spurningum sem hafa líka komið fram hér í máli ýmissa hv. þingmanna því að um leið erum við að reyna að beina nemendum inn í það að geta tekið síðan sveinsprófið, þ.e. að fyrirtækin verði jafnmeðvituð um það og nemandinn og menntakerfið sem slíkt, ráðuneytið eða hvaða skóli sem á í hlut, að fólkinu sé síðan beint í sveinsprófið.

Þetta er vonandi meira en bara tilraunarinnar virði því það er alveg rétt sem kom hér fram áðan að við höfum lagt mikla áherslu á það, allir flokkar fyrir kosningar, að efla og styrkja starfsnámið og iðnnámið og við eigum að gera það. Við erum að gera það með þessu og ekki síst eigum við að gera það með því að tala af virðingu um iðnnámið og starfsnámið eins og það kemur fyrir á hverjum degi.