131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Eyðing minka og refa.

97. mál
[15:12]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Á vegum umhverfisráðuneytisins störfuðu tvær nefndir að þeim verkefnum sem spurt er um. Önnur fékk það hlutverk að fjalla um veiðar á mink, fækkun og hugsanlega útrýmingu hans úr íslenskri náttúru, og skilaði hún tillögum sínum 20. mars síðastliðinn.

Hin nefndin fjallaði um áhrif refa á íslenska náttúru og hefðbundnar nytjar með það fyrir augum að gera tillögu um aðgerðir til að draga úr tjóni af hans völdum. Einnig fjallaði nefndin um viðgang refastofnsins á vernduðum svæðum og áhrif hans á lífríki þar. Nefndin skilaði tillögum til ráðuneytisins 23. júní síðastliðin.

Tillögur nefndar um mink hafa þegar verið lagðar fram í ríkisstjórn og eru nú til frekari umfjöllunar hjá starfshópi sem í eiga sæti fulltrúar fjögurra ráðuneyta, umhverfisráðuneytisins, félagsmálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins.

Tillögur nefndar um ref hafa verið kynntar í ríkisstjórn og eru þar nú til umfjöllunar.

Það er ljóst að eigi tillögur nefndar um mink að ná fram að ganga þarf að gera breytingar á lögum og auka verulega fé til málaflokksins á næstu árum. Eigi tillögur nefndar um ref að ná fram að ganga er enn fremur um að ræða nokkurn kostnaðarauka. Þær tillögur kalla hins vegar ekki á lagabreytingar.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 er ekki gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til þessa málaflokks og framhald málsins og aukið fjárframlag til málaflokksins mun ráðast af því hver verða afdrif tillagna þeirra nefnda sem skilað hafa tillögum til stjórnvalda um aðgerðir. Ég vænti þess að afstaða til þeirra liggi fyrir fljótlega hjá ríkisstjórn.