131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Eyðing minka og refa.

97. mál
[15:14]

Sigríður Ingvarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á málinu. Ég hef kynnt mér gögn þeirra tveggja nefnda sem umhverfisráðherra skipaði seint á síðasta ári. Í þeim gögnum kemur fram að meiri hluti minkanefndar taldi það óþarfa sóun á fé að afla frekari þekkingar á minkastofninum áður en ráðist yrði í kostnaðarsamar aðgerðir til fækkunar og jafnvel útrýmingar minks. En Náttúrufræðistofnun telur þvert á móti að auknar rannsóknir og þekking á mink séu forsenda þess að unnt verði að grípa til skilvirkari aðgerða en stundaðar eru í dag.

Í séráliti frá Náttúrufræðistofnun kemur fram að veiðiálag á minkastofninn sé óþekkt og útilokað sé miðað við núverandi þekkingu að segja til um hversu mikið þurfi að auka veiðar á landsvísu til þess að hafa umtalsverð áhrif á minkastofninn í landinu.

Nú vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra hver forgangsröðin eigi að vera að hennar mati?