131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Eyðing minka og refa.

97. mál
[15:18]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er ánægjulegt að nefndirnar séu búnar að skila af sér, en greinilegt að nefndarmenn greinir á um hvort frekari rannsókna sé þörf til þess að fara í markvissar aðgerðir. En minkurinn bíður ekkert eftir því, hann tímgast og hann tímgast mjög hratt. Það eru mjög ólíkar veiðiaðferðir í gangi og okkur liggur náttúrlega á að vita hvaða veiðiaðferð dugar best til þess að vinna sem hraðast á fjölgun minksins. Það er ljóst að notaðar hafa verið tiltölulega nýjar aðferðir og er áhugavert að skoða frekar hvort þeim eigi ekki að beita í meira mæli og eins að fara í veiði á öðrum tímum, sem sé vetrar- og haustveiði.

En burt séð frá þessu, miðað við þann ágreining sem er uppi er mjög alvarleg staða að búið sé að fella niður þær 3 millj. kr. sem áttu að fara til minkarannsókna, ef það á að vera undirstaðan fyrir framhaldið. Þar sem minkurinn tímgast hratt þolir verkefnið enga bið eftir nefndarstarfi og að útkljáð sé hvora leiðina eigi að fara, bara að fara í að rannsaka frekar. Til að byrja með verður að setja meira fjármagn í þennan málaflokk til þess að vinna eins og verið hefur og mæta fjárþörf sveitarfélaganna þannig að þau geti sinnt sínu lögboðna hlutverki. Samhliða á auðvitað að skoða málið upp á framtíðina en það þýðir ekki að draga úr framlögum núna og sjá svo til.