131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Hreindýrarannsóknir.

169. mál
[15:23]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra varðandi hreindýrarannsóknir.

Hreindýrin sem við fluttum inn lifðu af og lifa eingöngu á Norðausturlandi eins og þekkt er og hafa lifað þar nokkuð frjálst og verið ótrufluð nema á veiðitímanum fram að þessu. Við höfum einnig stundað ákveðnar hreindýrarannsóknir, fylgst með stofnstærð, sérstaklega með tilliti til beitarþols og eins með tilliti til veiða. Þetta er allt í góðum farvegi og Náttúrustofa Austurlands annast þær rannsóknir.

Aftur á móti eru í gangi núna mestu framkvæmdir Íslandssögunnar, eins og þær hafa verið nefndar, á hreindýraslóðum og því miður eru mestu framkvæmdirnar á burðarsvæði hreindýranna. Það, ásamt þeirri miklu umferð sem fylgir framkvæmdunum, hefur að sjálfsögðu truflandi áhrif á hreindýrin. Þetta var nokkuð fyrirséð en því miður höfum við ekki staðið að frekari rannsóknum og eflt hreindýrarannsóknir með tilliti til þeirra breytinga sem vænta má að verði á hreindýrastofninum, þ.e. hreyfingu, ferðum, bithögum og burðarstöðum.

Álíta má að hreindýrin hafi orðið fyrir umtalsverðri röskun. Vart hefur orðið við þau á öðrum svæðum frá því að framkvæmdir hófust en verið hefur undanfarin ár og síðan sást til hreindýra við Þórisvatn, sem er svæði sem hreindýrin hafa ekki farið inn á fram til þessa. Það er því mjög mikilvægt að fylgjast betur með ferðum þeirra.

Fyrirspurnirnar eru fjórar:

1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir frekari fjárveitingum til hreindýrarannsókna vegna virkjanaframkvæmda og mikillar umferðar á búsvæði hreindýra?

2. Verða sérstakar rannsóknir gerðar á árstíðabundnum ferðum hreindýra og búsvæðum eða bithögum með notkun senditækja?

3. Mun ráðherra láta gera sérstaka úttekt á svæðum utan hefðbundinna búsvæða hreindýra í ljósi þess að hreindýr hafa í haust fundist vestan Jökulsár á Fjöllum?

4. Veita hreindýratalningar vísbendingu um breytingar á ferðum hreindýra eftir að virkjanaframkvæmdir hófust norðan Vatnajökuls?