131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Hreindýrarannsóknir.

169. mál
[15:28]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Á yfirstandandi ári er varið 5 millj. kr. til Náttúrustofu Austurlands í Neskaupstað til rannsókna og vöktunar á hreindýrastofninum sem stofnunin annast samkvæmt lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Fjárhæðin var hækkuð um 2 millj. kr. á milli áranna 2003 og 2004. Einnig er varið til vöktunar hreindýrastofnsins til að meta veiðiþol hans um 800 þús. kr. að meðaltali á ári af því fé sem veiðimenn greiða til að fá leyfi til að veiða hreindýr. Engin áform eru um frekari fjárveitingar til hreindýrarannsókna vegna virkjanaframkvæmda og mikillar umferðar á búsvæði hreindýra af hálfu ráðuneytisins.

Ráðuneytið telur eðlilegt að Náttúrustofa Austurlands taki ákvörðun um hvernig haga beri rannsóknum með hliðsjón af þeim þáttum sem geta haft áhrif á vöxt og viðgang hreindýrastofnsins og telji hún ástæðu til getur hún m.a. beint rannsóknunum að þessum þáttum.

Svar við 2. spurningu er að notkun senditækja við rannsóknir á ferðum hreindýra hefur verið rædd en um er að ræða dýran búnað. Engar tillögur liggja fyrir um það frá lögskipuðum rannsakanda Náttúrustofu Austurlands að setja upp slíkan búnað í tengslum við rannsóknir á hreindýrum. Af því sem ráðuneytið fær best séð eru þær rannsóknir og sú vöktun sem fram fer á hreindýrastofninum viðunandi. Tiltölulega auðvelt hefur verið að gera sér grein fyrir útbreiðslu hreindýra og meta veiðiþol stofnsins af þeim upplýsingum sem Náttúrustofa hefur aflað. Komi hins vegar fram tillögur um sérstakar rannsóknir þar sem notuð yrðu senditæki verða þær tillögur að sjálfsögðu skoðaðar mjög gaumgæfilega.

Við 3. spurningunni er svarið að nýlega sást til tveggja hreindýrstarfa nálægt Vatnsfellsvirkjun. Að kröfu landbúnaðarráðuneytis var reynt að ná þeim þar sem þeir voru komnir í varnarhólf þar sem ekki hefur greinst riðusmit í tvo áratugi. Farið var fram á að törfunum yrði fargað eins og um smitaðan búpening væri að ræða. Þrátt fyrir leit hafa tarfarnir ekki fundist og er líklegt að þeir hafi snúið til heimahaganna.

Um nokkurt skeið hefur verið fylgst vel með því að hreindýr fari ekki vestur fyrir Kolgrímu sunnan Vatnajökuls en áin hefur verið nokkurs konar varnarlína í tengslum við sjúkdómavarnir. Hefur þótt ástæða til þess að fylgjast vel með þessu þar sem veiðar á svæðinu hafa verið minni en kvóti gerir ráð fyrir vegna deilna við landeigendur og landafnotendur sem ekki hafa heimilað veiðar. Ekki hefur þó komið til þess að fella hafi þurft hreindýr vegna þessa. Ekki hafa verið gerðar tillögur af hálfu hlutaðeigandi aðila til ráðuneytisins um að gera sérstaka úttekt á svæðum utan hefðbundinna búsvæða hreindýra enda vart tilefni til, samanber það sem ég nefndi áðan.

Svar við 4. spurningunni er að þegar hreindýrakvóti var ákveðinn fyrir yfirstandandi ár var ekki gert ráð fyrir verulegum breytingum á ferðum hreindýra en reynslan hefur sýnt að þeim hefur fækkað í nágrenni framkvæmdanna. Í úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 20. desember 2001 um Kárahnjúkavirkjun er m.a. sett það skilyrði að framkvæmdaraðili, þ.e. Landsvirkjun, skuli í samráði við Náttúrustofu Austurlands standa að nauðsynlegri viðbótarvöktun hreindýra á fyrstu tíu árum starfstíma virkjunarinnar til að staðreyna að áhrif hennar á hreindýrastofninn séu ekki meiri en gert er ráð fyrir í matsskýrslu. Í matsskýrslu er gert ráð fyrir að um 10%–15% af stofninum verði fyrir áhrifum vegna virkjunarinnar og tekið mið af því að hann sé sem næst 3.000 dýrum til að ekki sé of nærri gróðri á hálendinu gengið.

Landsvirkjun lét telja hreindýr norðan Brúarjökuls með myndatöku úr flugvél á árunum 1993–2003 auk þess sem Náttúrustofa Austurlands hefur gefið út skýrslu um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á hreindýrastofninn. Samkvæmt áætlunum Landsvirkjunar er ætlunin að hefja vöktunina 2006 og verður það gert í náinni samvinnu við Náttúrustofu Austurlands.

Ég tel rétt að vöktunin hefjist á næsta ári og mun taka málið upp við hlutaðeigandi aðila á þeim grunni.